Skáldskaparmál - 01.01.1997, Blaðsíða 242
240 Jón Hnefill Aðalsteinsson
sem texti er örlítið frábrugðinn, en það skiptir ekki máli hvað þá umræðu varðar sem
hér fer fram).
í þessari frásögn eru þrjú atriði mikilvæg frá trúarsögulegu sjónarmiði: 1.
Meðferðin á hestinum. 2. Hofsbrennan. 3. Misþyrming goðamyndanna. Aður
en vikið er að meðferðinni á hestinum er ástæða til að fara nokkrum orðum um
hin atriðin tvö.
Fyrir löngu var á það bent hve fjarstæð sé frásagan um meðferðina á goðamynd-
unum og goðahúsinu (SN 1940, 33). Vil ég taka undir það sjónarmið. Norræn
trú var ríkjandi hér á landi nær alla tíundu öldina. Goðarnir fóru með allt vald,
bæði stjórnarfarslegt og trúarlegt, en þetta tvennt var á þessum tíma ósundur-
greint. Því var óhugsandi að það gerðist í raun eða yrði sagnaefni á tíundu öld, að
goði, goðorðseigandi og verðandi goði tækju sig saman urn að brenna hof og
svívirða goðamyndir á stað þar sem sá síðasttaldi var í þann veginn að taka við
völdum. Viðurlög við helgispjöllum og goðgá munu hafa verið í gildi hér á landi
nær alla tíundu öld og laust fyrir 1000 var hert á ákvæðum þeirra laga og kveðið
nánar á um hverjir skyldu lögsækja (Ól.Tr.m. 1958, 310; ASB 11,18 o.áfr. JHA
1978, 72-73 og tilv. rit). Forsenda þessara hertu viðurlaga mun hafa verið sú, að
þá voru kristnir trúboðar konmir á vettvang sem gerðu sér far um að spilla
helgidómum og goðamyndum.
Frásögn Hrafnkels sögu um misþyrmingu goðamyndanna og hofsbrennuna á
sér hliðstæður í Njáls sögu og Kjalnesinga sögu þar sem segir frá Hrappi og Búa.
Með hliðsjón af þeim samanburði hafa menn talið þessa frásögn Hrafnkels sögu
tilbúning (SN 1940,33). Framferði Þjóstarssona hefur einnig verið líkt við aðfarir
Ólafs konungs Tryggvasonar í Þrándheimi sem segir frá í Flateyjarbók. Hann fór
á bak hesti sem sagt var að Freyr ætti, reið honum til hofsins og hjó goðin niður
af stöllum, reiddi Freyslíkneskið síðan með sér á þing og hjó það þar sundur í
augsýn Þrænda (AL 1945, 61; Flat. I 1946, 446—448). Það mat fræðimanna sem
hér hefur verið vísað til er enn í fullu gildí.
Áðurnefnt framferði kristnu trúboðanna mætti harðri andstöðu fyrst í stað, en
er frá leið og eftir að kristni hafði náð að festa rætur í landinu var atferli þeirra
talið hetjudáð og tekið gott og gilt. Það er í því ljósi sem atburðir á borð við
meðferðina á goðunum og hofsbrennuna í Hrafnkels sögu gátu orðið sagnaefni.
Hvort sagnir um þetta tiltekna efni mótuðust í munnlegri geymd fyrir ritunartíma
sögunnar eða hvort höfundur tók efnisföngin hjá sjálfum sér með hliðsjón af
öðrum hliðstæðum frásögnum skal ósagt látið.
III
Frásögnin af aftöku Freyfaxa er nátengd því sem segir af meðferðinni á goðamynd-
unum og hofsbrennunni. Þá vaknar sú spurning hvort lýsing á þeim atvikum sé
jafn fjarlæg norrænum átrúnaði síðustu aldirnar fyrir kristnitöku og hinar frásagn-