Skáldskaparmál - 01.01.1997, Síða 250
248
Jón Hnejill Aðalsteinsson
Hvar svo sem menn hafa viljað setja Freyfaxahamar niður í Hrafnkelsdal, hefur
að því er best verður séð engin lausn fundist þar sem allt kemur heim við söguna
sjálfa, því að hver ný tilgáta um hamarinn hefur boðið heim nýjum vandamálum
varðandi aðra sögustaði, einkum Aðalból. Umhverfislýsingar sögunnar eru mjög
nákvæmar þegar lýst er aðförinni að Hrafnkeli og koma í öllum atriðum vel heim
við landslag þar sem bærinn Aðalból stendur nú. Þær lýsingar eiga hins vegar
hvergi við staðhætti annars staðar í Hrafnkelsdalnum. Því virðist ekki einföld
lausn fyrir hendi á þessu staðfræðilega úrlausnarefni. Afstaða bæjarins og hamars-
ins hvors til annars, eins og henni er lýst í sögunni, kemur ekki heim við landslag
í Hrafnkelsdal.
Ef það hefði gerst laust fyrir miðja tíundu öld, að Freyfaxa hefði verið varpað
fram af hamri við Hrafnkelu með þeim hætti sem sagan segir, þá var ekki óeðlilegt
að sagnir af þeim verknaði geymdust í minni á svæðinu. Þegar sagan var rituð
hefðu sagnir af atburðinum haft um 300 ár til að mótast og slípast. Hvað sem leið
búsetu í Hrafnkelsdal á þeim öldum sem hér um ræðir, þá hlaut umferð jafnan
að vera mikil um dalinn vegna steinbogans á Jökulsá. Um tvær leiðir var að tefla
og hvor sem farin var þá blasti við ferðamönnum umhverfi Aðalbóls, nákvæmlega
eins og því er lýst í sögunni, og eyrarnar við ána niður undan bænum (AJ 1951,
4). Einnig mun flokkur gangnamanna hafa farið um Hrafnkelsdal og nágrenni
hvert haust á þeim tíma sem dalurinn var í eyði. Því er óhugsandi, frá þjóðsagna-
fræðilegu sjónarmiði, að sögn hafi festst í formum og gengið manna á milli öld
fram af öld, þar sem því var haldið fram, að hamar væri við Hrafnkelu niður undan
bænum á Aðalbóli. Frásögnin afaðförinni að Hrafnkeli og frásögnin af tortímingu
Freyfaxa gátu því ekki lifað lengi saman í munnlegri geymd. Sagnamenn sem
þekktu til á svæðinu hefðu lagað sagnirnar þannig að þær kæmu þó alténd heim
við landslagið hvað sem öðru leið.
Frá þjóðsagnafræðilegu sjónarmiði er því útilokað að sagan um tortímingu
Freyfaxa við Freyfaxahamar niður undan bænum á Aðalbóli hafi lifað öldum
saman í munnlegri geymd með öðru efni sögunnar.
Þessi niðurstaða breytir því þó ekki, að vel er hugsanlegt að hamar kenndur við
Freyfaxa hafi verið til einhvers staðar í Hrafnkelsdal eins og Jón Jóhannesson
bendir á í formála Hrafnkels sögu (JJ 1950, L). Það örnefni hefði þá væntanlega
verið til allt frá dögum norrænnar trúar, eldra en Hrafnkels saga og óháð sögunni.
Mér virðist hins vegar ofsagt það sem Jón Jóhannesson bætir við, „þótt nú sé það
týnt“, en til að finna það þarf annan leiðsögumann en höfund Hrafnkels sögu.
Hins vegar fellst ég á það sem Jón segir í sama formála, að þetta forna örnefni geti
hugsanlega borið vitni um einhverja Freysdýrkun í ætt Hrafnkels líkt og örnefnin
Freyshólar og Freysnes sem eru skammt frá bústöðum sonarsona hans á Héraði
(JJ 1950, L). Þessi tilgáta er út af fyrir sig ekki ólíkleg og fær stuðning af
fyrrnefndum athugunum Aslak Liestols o.fl. á öðru því sem segir af Freyfaxa og
Freysdýrkun Hrafnkels í upphafi sögunnar.