Skáldskaparmál - 01.01.1997, Page 251
Freyfaxahamarr 249
VII
Trúararfsagnir tíundu aldar hlutu að taka eðlilegum breytingum af umhverfi og
ríkjandi hugmyndum eftir því sem leið á aldirnar í kristnu landi. Áður hefur verið
rakið hvernig viðhorf til vanhelgunar norrænna goða breyttist úr refsiverðu athæfi
á tíundu öld í hetjudáð nokkrum öldum síðar. Annað efni trúararfsagna var undir
sömu sök selt. í norska sagnaefninu sem rakið hefur verið má sjá hvernig fornar
fórnarfrásagnir og frásagnir af förgun hrossa á síðari öldum hafa gengið manna á
meðal í sviplíku munstri. Eftir kristnitöku mótuðust sagnir í Noregi um að
hestum hafi verið fargað með því að hrekja þá fram af hömrum. Það leiðir hugann
að hrossunum eða hryssunum á Aðalbóli sem áttu að verða ellidauðar. Þá hefur
þeim hugsanlega verið fyrirkomið í mýri, vatni eða hrint fram af björgum, því
ætla má að svipaðar aðferðir hafi verið viðhafðar hér á landi og í Noregi, enda þótt
hliðstæðar sagnir hafi ekki varðveist. Það er því engan veginn útilokað að
höfundur Hrafnkels sögu hafi getað stuðst við einhverjar kristnar arfsagnir um
förgun hrossa, svipaðar lýsingu hans á aftöku Freyfaxa.
í Hrafnkels sögu eru nokkur trúarsöguleg minni sem sumir fræðimenn hafa
talið að byggðu á fornum tíundu aldar arfsögnum. Nefni ég hér sérstaklega helgina
á Freyfaxa, helgispjöllin og hnegg hestsins er leiddi til vígs Einars. Þessi minni
tengjast afstöðu Hrafnkels til átrúnaðar í upphafi sögunnar og falla ágætlega inn
í þann hugmyndaheim sem ætla má að hafi mótað viðhorf manna hér á landi
laust fyrir miðja tíundu öld. Um þetta efni hefur víða verið fjallað og vísa ég hér
til nokkurra rita (AF 1945, 60 o.áfr.; GTP 1964, 167; JHA 1990, 77—79 o.dlv.
rit). Um sum önnur trúarleg minni í sögunni gildir hins vegar, að þar getur ekki
verið um tíundu aldar trúararfsagnir að ræða. 1 þeim minnum gætir kristinna
viðhorfa og kristinnar afstöðu til norrænnar trúar. Nefni ég í því sambandi orð
Þjóstarssona og athafnir og vísa til þess sem fyrr sagði um hofsbrennuna og
misþyrmingu goðamyndanna.
Þá er að líta á sjálfa frásögnina af tortímingu Freyfaxa og meta hana í
trúarsögulegu ljósi.
Þorgeir óvirti Freyfaxa og lagði illt til hans áður en til aftökunnar kom. I þessu
framferði birtist gerbreytt viðhorf frá því sem ríkti í norrænni trú. Þar var sérstök
virðing borin fyrir helgum fórnarhestum. Kemur það glöggt fram í viðmóti
Hrafnkels við Freyfaxa og viðmóti þeirra sem töluðu til indverska fórnarhestsins
áður en hann var felldur.
Fatið sem dregið var á höfuð Freyfaxa hlaut við þær aðstæður sem lýst er að
þjóna þeim megintilgangi að hindra að hann beindi illu auga að umhverfinu.
Undirstrikar sú staðreynd enn frekar fjandsamlegt viðhorf þeirra bræðra, Þorgeirs
og Þorkels, til hestsins sem þeir líta á sem bölvald og meinvætt.
Þjóstarssynir tóku hávar stengur og hrintu hestinum fram af klettinum. Gróft
ofbeldið sem þarna er lýst stingur einnig mjög í stúf við það sem þekkt er um
aftöku fórnarhesta í norrænum sið. Þá kemur nákvæmni í lýsingu höfundar
nokkuð á óvart. Engu líkara en að hann hafi verið vitni að hliðstæðri aftöku eða
heyrt henni lýst í smáatriðum. Þegar hestum var fargað með því að hrinda þeim