Skáldskaparmál - 01.01.1997, Page 269
Umsagnir um bœkur
267
hans. Bagge leggur áherslu á mikilvægi þess að á Snorra sé ekki litið sem eins konar
nútímasagnfræðing og er þar að deila við norska forvera sína (Koht og fleiri) en
fetar að nokkru leyti sömu brautir og Sverrir Tómasson í doktorsritgerð sinni og
áður, án þess að hafa lesið hann (að minnsta kosti kemur það ekki fram í
heimildaskrá). Mest vægi fær tímatal Snorra, sem er vitnisburður um sjálfstæði
hans sem sagnfræðings, og sá kafli (32-49) er greinagóður. Snorri notar ekki
kristið tímatal og Bagge bendir réttilega á að auðvitað sé það jafn afstætt og hvað
annað, tímatal hafi á hinn bóginn annað hlutverk en að vera aðeins mælieining:
„In Snorri’s chronology time is not general time; it belongs to each particular
king.“ (57) Ekki fmnst mér þó niðurstaðan alveg nógu sannfærandi. Kristna
tímatalið er stórfenglegt tæki, mun betra en afstætt tímatal Snorra og hvers vegna
ætti hann ekki að nota bestu græjurnar? Nú tengir Snorri Fróðafrið við fæðingu
Krists í Snorra-Eddu og þekkir kristið tímatal Ara, sem hann kýs að nefna
sérstaklega í formála. En hann kýs að miða við ríkisár konunga í staðinn og mér
fannst Bagge ekki takast að skýra nógu vel hvers vegna, sérstaklega í ljósi þess að
hann telur Snorra ekki eindreginn konungssinna, þó að vissulega ætli hann
honum ekki heldur að vera þjóðfrelsishetja.
Annar kafli bókar Bagge nefnist The Conflicts (64-110). Vissulega segir með-
ferð Snorra á Ólafi kyrra allt sem segja þarf um áhugasvið hans, þ.e. þau eru ófriður
og bardagar. Bagge leggur áherslu á að Snorri hafi stjórnmálalega afstöðu og sé
skynsemishyggjumaður sem leitist við að skýra atburði rökrétt út frá eðli einstak-
linga og stjórnmála en gjarnan eru þær skýringar tengdar persónum fremur en
þjóðfélagsaðstæðum og er sagan um hvers vegna Haraldur hárfagri leggur undir
sig Noreg gott dæmi. Bagge hafnar því skoðun Kohts að meginás Heimskringlu
sé átök konungs og höfðingja. I augum Snorra séu stjórnmál mannleg samskipti.
Eigi að síður er Heimskringla lýsing á þjóðfélagi og að því snýr þriðji kafli
bókarinnar (110—145). Einkum fjallar Bagge um hvernig eining þjóðfélagsins sé
stef í ritinu. Fjórði kafli bókarinnar fjallar svo um siðferði og mannlegt eðli
(146-191). Þar er rætt um konungsímynd Snorra og afstöðu fyrirmyndar og
raunar. Umfjöllun Bagge um fyrirmyndir andspænis einstaklingum er mjög í
samhengi við þá umræðu sem nú er áberandi í miðaldafræðum og er hún merkasta
nýjung bókarinnar því að almennt hefur verið litið á persónur Heimskringlu sem
snjallar lýsingar einstaklinga þó að í formála nýjustu Heimskringluútgáfu hafi
raunar verið vikið nokkuð frá því.
Lykilkafli bókarinnar er sjötti kaflinn, The Historian (192-231). Þar fjallar
Bagge um vinnubrögð Snorra sem sagnfræðings. Það sem hann skoðar einkum
eru hugmyndir Snorra um þróun norrænnar sögu og skiptingu hennar í tímabil
(192-201), hugmyndir um tilgang sögunnar (201—8) og afstöðu til hins yfirnátt-
úrlega. Koht taldi að Snorri hefði sérstaka heildarsýn á sögu Noregs, á svipaðan
hátt og nútímasagnfræðingar. En Bagge telur að þetta stangist á við það sem vitað
sé um miðaldasagnfræði. Vissulega megi sjá hjá Snorra hvers kyns alhæfingar um
sögu en almennt sé Heimskringla safn ævisagna. Og þó að ýmis viðhorf Snorra