Skáldskaparmál - 01.01.1997, Page 271
Umsagnir um bœkur
269
inu hafi verið hlutfallslega mikið jafnræði milli manna, miðað við annarstaðar í
Evrópu, þ.e. að „stjórnmál“ hafi verið að sumu leyti líkari því sem er í lýðræðis-
ríkjum. En þarf það að vera? Nú fer sagnaritun á Islandi ekki að dafna fyrr en
undir lok 12. aldar. Og hvernig samfélag er þá á Islandi? Samkvæmt byskupasög-
unum snýst samfélagið um byskupsstólanna og fámenna valdaklíku í kringum
þá. íslendingabók, elsta íslenska sagnfræðirit sem varðveist hefur, sýnir sams konar
samfélagsbyggingu og einnig Sturlunga. A Islandi fara örfáir höfðingjar sínu fram,
aðrir fylgja þeim. Hið „lárétta“ samfélag sem þar var á undan er hugmynd manna
á 13. öld um fortíðina sem hæpið er að trúa eins og nýju neti. Því er ekki víst að
íslenskt samfélag á 12. og 13. öld hafi verið „láréttara“ en konungsríki Evrópu
sem voru þá ekki einveldi eins og síðar varð. Á hinn bóginn var það trúlega
óstöðugra og minnir þannig um margt á Noreg áður en Sverrir og afkomendur
hans festa sig þar í sessi.
Sagnfræði eða bókmenntir?
Um margt drepa þau Bagge og Whaley á sömu atriði í umfjöllun sinni um
Heimskringlu. Eitt sem er ofarlega á baugi hjá þeim báðum er hvernig rit
Heimskringla sé, sagnfræði eða bókmenntir. Um það fjallar Diana Whaley í
lokakafla bókar sinnar og kemst að þeirri niðurstöðu að Heimskringla sé hvort
tveggja. Öll sagnfræði sé bókmenntir og lúti lögmálum frásagnarfræðinnar.
Sagnfræði og bókmenntir séu því ekki „mutually exclusive categories“ eins og hún
orðar það (113). Diana Whaley fetar hér í fótspor kappa eins og Roland Barthes
og Hayden White í umfjöllun sinni um eðli sagnfræðiritsins á skýran og skipu-
legan hátt þannig að vart er hægt annað en að sannfærast. Lokaniðurstaðan er sú
að vissulega sé hægt að lesa Heimskringlu sem eins konar „skáldsögu“ án þess að
taka tillit til þess sagnfræðilega veruleika sem hún þykist lýsa en þá glatist innsýn
í eðli ritsins (139—42). Þar hittir hún naglann á höfuðið. Það er útilokað að hafa
nokkurn skilning á eðli verks eins og Heimskringlu ef ekki er tekið tillit til þess
að því er ætlað að vera sagnfræði. Á hinn bóginn finnst mér Whaley fara út af
sporinu þegar hún kallar Islendingasögurnar „literary fictions“ (137). Nú ætla ég
ekki að halda öðru fram en að íslendingasögur séu stórbrotin bókmenntaverk og
þær beri að kanna með frásagnarfræðilegum aðferðum. A hinn bóginn eru þær,
með örfáum mögulegum undantekningum, líka sagnfræði, þ.e. rit sem hafa það
að markmiði að lýsa foru'ðinni „wie es eigentlich gewesen ist.“ Það á jafnt við
Eyrbyggju, Grettis sögu og Bárðar sögu Snæfellsáss.
Bagge er í grundvallaratriðum sammála Whaley en hann fjallar aftur á móti
ekki um söguna sem bókmenntir nema að því leyti sem það varpar ljósi á hana
sem sagnfræðirit. Því að sagnfræðirit er hún ótvírætt en á hinn bóginn jafn
örugglega ekki sagnfræðirit sem nútímasagnfræðingur gæti sent frá sér. Saga
Noregs er hún heldur ekki: „Heimskringla is strictly speaking a series of royal
biographies, not what we would call a national history." (136) Óvíst er raunar
hvort nokkur miðaldasagnfræði verðskuldi þann titil frá sjónarhóli nútímasagn-