Skáldskaparmál - 01.01.1997, Side 279
JJmsagnir um bœkur
277
staðfestingar á þessari kenningu. Þar hefur höfundur haft miklu auðugri heimildir
en að sama skapi örðugar viðfangs, því að margar þeirra eru mjög ungar og munar
árþúsundum á þeim og elsta myndefni. Niðurstaðan verður þó að samhengi sé
milli heiðinna leikathafna og helgisiða og leikja frá síðari tímum, einkum þeirra
sem tengjast sumar- og vetrarsólhvörfum. Niðurstöður Terry Gunnell um þessi
efni eru í sjálfu sér ekki nýstárlegar, en þær eru þó að flestu leyti meira traustvekj-
andi en niðurstöður fyrri fræðimanna vegna þess hve vandlega hann kannar og
ber saman allar heimildirnar og hve varkár hann er í ályktunum. Efniviðurinn er
þannig að sjálfsagt verður aldrei við komið neinu sem kalla má sannanir, en
túlkunin er sennileg og laus við innri mótsagnir að því er mér virðist.
Merkasta nýjung verksins er tvímælalaust rannsókn þess á eddukvæðum og
röksemdafærsla fyrir þeirri kenningu að nokkur flokkur samtalskvæða í Eddu sé
þannig saminn að kvæðin hljóti að hafa verið flutt með leikrænum tilburðum.
Röksemdirnar eru annars vegar greining á texta kvæðanna og hins vegar sótt í
Konungsbók sjálfa og AM 748. Þar eru á spássíum ábendingar um mælendur í
kvæðunum, ábendingar, sem samkvæmt túlkun Terry Gunnell verður að líta á
sem eins konar leikleiðbeiningar. Terry bendir á hliðstæður í evrópskum handrit-
um frá svipuðum tíma þar sem mælendur eru merktir með sama hætti í verkum
sem ætluð eru til leikflutnings. Um þetta efni hefur hann skrifað greinar á íslensku
nýlega (Skírnir, 167, 1993, og Skáldskaparmál, 3, 1994).
Kvæðin sem eru viðfangsefni í þessum meginkafla ritgerðarinnar eru samtals-
kvæði undir ljóðahætti: Skírnismál, Hárbarðsljóð, Vafþrúðnismál, Lokasenna og
Fáfnismál, en eins og sjá má eru þau öll goða- eða goðsagnakvæði. Fáfnismál er
venja að flokka með hetjukvæðum, enda aðalpersónan hetja, en þó gerist kvæðið
í heimi þar sem drekar skríða um heiðar og fuglar tala, og það er fullt af ráðum,
heilræðum og spásögnum úr heimi sem er handan þess mannlega. Hér er því um
hetjugoðsögn að ræða. Þetta goðsagnaeðli kvæðanna skiptir nokkru máli fyrir þá
grundvallarhugmynd ritsins að þau eigi rætur að rekja til eins konar helgileikja
(ritual drama). Flokkur þessi er afmarkaður annars vegar með formlegum rökum
og hins vegar með tilvísun til þess hvernig kvæðin eru skráð í aðalhandritin. Terry
Gunnell hefur fyrstur manna gert rækilega greiningu á þýðingu þess að mælendur
beinnar ræðu í þessum samtalskvæðum eru tilgreindir á spássíum með skamm-
stöfunum. Af greiningu hans á kvæðunum sjálfum leiðir síðan að þessar merkingar
eru nauðsynlegar, þótt ritarar hafi ekki litið á þær sem hluta af texta kvæðanna,
nauðsynlegar til að ljóst sé hver talar hverju sinni.
Kaflar í lausu máli sem fylgja kvæðum þessum í Konungsbók skipta máli í
þessari umræðu. Terry styður þá skoðun að þessir kaflar séu ekki hluti af hefð-
bundinni varðveislu kvæðanna, enda stundum óþarfir og jafnvel í andstöðu við
kvæðin sjálf. Hitt er þó ekki útilokað að kvæðin hafi verið kynnt með einhverjum
orðum af kvæðamönnum og þeir hafi jafnframt getið þess hver talar hvar í
kvæðinu, án þess að það kæmi fram í flutningi með öðrum hætti. Hver talar,
skiptir auðvitað öllu máli í samtalskvæði. Þegar málið er hugleitt, virðist aðeins