Skáldskaparmál - 01.01.1997, Qupperneq 281
Umsagnir um bœkur
279
MedievalScandinavia: An Encyclopedia, ritstjóri Phillip Pulsiano, aðstoðarritstjóri
Kristen Wolf, meðritstjórar Paul Acker og Donald K. Fry (Garland Encyclopedias
of the Middle Ages, 1), London og New York, 1993.
Það er ekki hægt að skrifa ritdóm með venjulegu lagi um alfræðibók sem samin
er af ríflega 240 höfundum, og hver þeirra (vonandi) að fjalla um anga af sínu
sérsviði. Til þess þyrfti ritdómarinn að vera gangandi leksíkon um norrænar
miðaldir, með fingur á púlsi fræðilegrar umræðu á öllum sviðum þeirra og glögga
sýn á allt það sem að gagni hefði verið skrifað um hvert þeirra tæplega sexhundruð
viðfangsefna sem fjallað er um í þeirri bók sem hér verður vikið að. Hér á eftir fer
því ekki eiginlegur ritdómur heldur stutt hugleiðing (af þjóðlegum sjónarhól)
vegna nýlegs fræðirits sem virðist unnið af skynsamlegum metnaði og stórhug,
vandvirkni og samviskusemi, einsog vera ber þegar efnt er í alfræðirit.
Bókinni er framar öðru ætlað að vera sýnisgluggi fyrir það námsfólk læst á ensku
sem ekki hefur fullt vald á norrænum málum, áhugahvöt fyrir þá sem ekki eru
sérfróðir um norrænar miðaldabókmenntir og menningu, örvun til að kafa dýpra
en hægt er í stuttri fróðleiksgrein. En hún er líka gagnleg öllum þeim sem fást við
fræði á þessu sviði; margar þeirra greina sem þar er að fmna um samfélag og
menningu, tæki og tól, siði og háttu norrænna manna á miðöldum hnita mikinn
fróðleik í stuttu máli. Tímarammi ritsins er víður, „from roughly the Migration
Period to the Reformation“ einsog ritstjórinn, Phillip Pulsiano, segir í inngangs-
orðum sínum. Þar kemur líka fram að sú stefna hans, að „the reader would best
be served by generally lenghtier entries rather than by a proliferation of brief
entries; breadth without depth seemed a compromise illsuited to the needs of our
intended readers“ (vii). Greinar eru því nokkru færri en vænta hefði mátt í 750
blaðsíðna bók í stóru broti, en þær eru flestar að sama skapi lengri og ítarlegri.
Hverri þeirra fylgir valin ritaskrá og listi millivísana. Við bókarlok er síðan
nákvæm atriðisorðaskrá.
Sú stefna að skera niður greinafjölda leiðir óhjákvæmilega til þess að ritstjórn
þarf að velja og hafna; margir muna sjálfsagt sakna gamalla kynna í þessari bók.
Hér má taka fáein dæmi af bókmenntum. Við lauslega talningu virðast um 80
greinar fjalla um einstakar ævintýrasögur eða rómönsur (frumsamdar og þýddar
riddarasögur, fornaldarsögur og lygisögur) og fjórar mislangar greinar samdar af
jafnmörgum höfundum fjalla um þessar bókmenntategundir. Greinar um einstök
verk er margar vel samdar, skýrar og skipulegar, og samanlagðar gefa þær ágæta
sýn yfir bókmenntategund sem sannarlega hefur að ósekju setið lengi í skugga
vinsælli greina einsog íslendinga sagna, þátta og konungasagna. Fjallað er um
hverja hinna 40 íslendinga sagna í sjálfstæðri grein einsog vænta mátti en aðeins
um tvo tugi þeirra 40-60 þátta sem hefðbundið er að prenta sem (hálf)sjálfstæðar
frásagnir í útgáfum; sérstakar greinar eru t.d. um Odds þátt Ófeigssonar, Þorsteins
þátt sögufróða og Brands þátt örva, en ekki um Orms þátt Stórólfssonar, Þórarins
þátt Nefjólfssonar og Bolla þátt, svo fáeinir séu nefndir: ekki er ljóst hvað hefur
ráðið vali á þeim þáttum sem fjallað er sérstaldega um. Þá er prýðileg yfirlitsgrein