Gerðir kirkjuþings - 1996, Blaðsíða 13
í ölduróti breytinga sem umskapa ört alla heimsbyggðina hefur íslenska þjóðkirkjan einnig
leitast við að tryggja hlutdeild Islendinga í trúarlegu samstarfi þjóða og kirkjudeilda. Hið
nýja alþjóðlega starf þjóðkirkjunnar er rökrétt framhald af þátttöku hennar í baráttu íyrir
sjálfstæði þjóðarinnar og fullveldi.
Hið sammannlega er nú alþjóðlegra en nokkru sinni íyrr. Kristilegur kærleikur tengir okkur
ekki aðeins við örlög nágranna og samlanda heldur einnig hörmungar og lífshamingju bræðra
okkar og systra um veröld víða.
Það er ekki aðeins hlutverk forseta lýðveldisins, ríkisstjómar og Alþingis að vera fulltrúar
íslendinga í samfélagi þjóðanna. Kirkja landsins, prestar og söfnuðir, eru einnig mikilvægir
þátttakendur í sívaxandi samstarfi mannkyns alls, samstarfi sem knúið er áfram af
sameiginlegri ábyrgð á örlögum heimsbyggðarinnar. Hin nýja samkennd er sprottin úr
farvegi ólíkra trúarbragða sem í íýrstu kunna að virðast framandi en smátt og smátt snerta
streng í brjóstum okkar allra.
Sumum kann að finnast að kirkja landsins sé um þessar mundir vanbúin að sinna þessum
verkum vegna sundurlyndis og deilna sem nokkuð hafa markað svipmót hennar í opinberri
umfjöllun. Vafasamt er að gera of mikið úr slíkum vanda eða telja hann nýjan af nálinni.
Hollt er í þessum efnum að minnast texta úr hirðisbréfi Sigurbjöms Einarssonar biskups íyrir
36 árum síðan og hugleiða þá tíð sem síðan er liðin. Hirðisbréf herra Sigurbjöms bar heitið
„Ljós yfir land“. Þar segir:
„Þegar litið er til íslensku þjóðkirkjunnar í dag, eru blæbrigði mörg í skoðunum, og innan um
er um verulegan ágreining að ræða. En ég hygg, að ég sjái það rétt, að þau flokkaskil, sem
nokkuð kveður að, séu fremur arfur en nýjar krossgötur, sem fersk hugsun hafi leitt menn á.
Ég hygg, að tímamót séu mnnin í þessu efni, og að heilbrigð þróun kirkjumála í landinu sé
m.a. undir því komin, að yngri kynslóð presta og hugsandi kirkjumanna átti sig á því til
hlítar. Aldamótin síðustu hafa ekki skipt farvegum til frambúðar. Þar með er ekki sagt, að
elfur kirkjunnar falli framvegis í einni rás og í stöðugri lygnu. Því fer fjarri að ég vænti þess.
En næstu aldamót eru komin nær en þau síðustu.“
Þessi texti úr hirðisbréfi Sigurbjöms Einarssonar biskups til presta og safnaða árið 1960 ætti
að vera öllum hvatning til að ijalla af hógværð og með jafnvægi hugans um vanda líðandi
stundar. Jafnframt felst í textanum áminning um að tíminn flýgur hratt og þau aldamót sem
Sigurbjöm biskup taldi nær eru nú aðeins örskot ffá okkar tíð.
Hvorki þjóð né kirkja mega því slá slöku við eigi sú mikla hátíð íslenskrar kristni sem í
vændum er að vera samboðin trú okkar og sæmd. I þeim efnum er mikið verk að vinna. Það
krefst öflugrar samstöðu innan kirkjunnar og gagnkvæms trúnaðar hins veraldlega og
geistlega valds.
Ég óska kirkjuþingi farsældar í störfum og geri að lokaorðum eftirfarandi hvatningu úr
niðurlagi hirðisbréfsins sem fýrr var nefnt:
„Hér er kirkja í landi vegna þess, að góður Guð elskar þessa þjóð og vill að hún eigi hlutdeild
í lífi hinnar komandi veraldar, í sigri upprisunnar, ríki kærleikans.
Kirkjan hjarir ekki af mannlegri náð. Hún lifir sakir Guðs náðar við þjóð og heim.
Og lífsstarf vort á að verða gjöf þeirrar náðar handa kirkju og þjóð.“
10