Skírnir - 01.09.1990, Side 21
SKÍRNIR
UM DAUÐANS ÓVISSAN TÍMA
273
ce compte“ (bls. 56). (Og hafi hann sýnt meiri grimmd og harðýðgi en
ég kæri mig nú um að segja frá, megi þá hinn eilífi Guð gera eins við
hann). Hin augljósa samsvörun kvæðisins og sálmsins varpar nýju ljósi
á það sem í fyrstu virtust hreinar bölbænir.
Nichols telur að Villon hafi í kvæðum sínum notað kristna hugmynd
um dauðann sem upphaf, sem tækifæri til að koma reiðu á líf sitt, hann
raði saman brotunum úr ævi sinni, breyti lífi sínu í samfellt mál og
minnisvarða. Hann bendir á þá sérstöðu sem kvæði Villons hafi innan
.sinnar bókmenntagreinar. Hann komi fram með nýjungar í formi
kvæðanna og það sem er ekki síður athyglisvert: Villon yrkir kvæði sem
fela í sér ögrun við miðaldahugmyndir án þess þó að afneita þeim;
kvæði sem setja persónulega lífssýn andspænis hinni hefðbundnu
heimsmynd á þann hátt að það minnir á hve Villon stendur í tíma
nálægt siðbreytingunni.
II
Dauðinn var enska skáldinu John Donne áleitið umhugsunarefni eins
og fleiri samtímamönnum hans. Hann var eins og T. S. Eliot orðaði það
„much possessed by death“ (gagntekinn af dauðanum)1. John Carey
prófessor í ensku við háskólann í Oxford, sem skrifað hefur bókina
John Donne: Life, Mind and Art, bendir þar á að hann hafi þó engan
veginn hrifist af öllum hugmyndum samtímans um dauðann, hann lýsi
dauðanum t.d. aldrei sem voldugri hetju eins og sir Walter Raleigh
gerði í frægum kafla í History of the World. Að líkja dauðanum við
svefn var algengt þá sem oftar, sbr. þessi orð Macbeths um Duncan:
„Duncan is in his grave; / After life’s fitful fever he sleeps well.“ (III,
2, línur 22—23).2 En Donne skrifaði sjálfur í bréfi til vinar síns, sir Henry
Goodyer, að hann óskaði þess alls ekki að deyja í svefni. Hann vildi
berjast við dauðann, vildi lenda í sjávarháska, en ekki drukkna í leðju!
Carey heldur því fram að Donne hafi hrifist af þeirri ögrun sem honum
fannst dauðinn vera, enda sé dauðinn afgerandi en lífið margrætt og
flókið. Auk þess sé dauðinn „úrslitastund“ og að koma honum að í
1 T.S. Eliot: „Whispers of Immortality", Selected Poems, Faber and Faber,
London 1954.
2 William Shakespeare: Macbeth, útg. G. K. Hunter, Penguin 1967.