Skírnir - 01.09.1990, Page 31
SKÍRNIR
UM DAUÐANS ÓVISSAN TÍMA
283
Ég lifi í Jesú nafni
í Jesú nafni ég dey,
þótt heilsa og líf mér hafni
hræðist ég dauðinn ei.
Dauði, ég óttast ekki
afl þitt né valdið gilt.
I Kristí krafti ég segi:
Kom þú sæll, þá þú vilt.
Þetta er trúarjátning og trúarjátningar hefjast gjarnan á orðunum „ég
trúi“. Þetta gefur játningunni og sálminum öllum sterkan og persónu-
legan blæ. En það minnir líka á það sem sagt var um sjálfsmynd og
sjálfsvitund í dauða í kvæðum Villons og Donnes.
Sigurbjörn Einarsson segir í ritgerð um dauðann í bókinni Lifandi
von: „Enginn getur sett staðreynd eigin dauða í lifandi eða lifað sam-
band við lífsvitundina í barmi sínum. Ég veit að allir deyja. En ég? Ég
er nú einu sinni ég. Munið þið eftir því, þegar þið í bernsku upp-
götvuðuð þetta? Það eru þáttaskil á þroskaferli hvers manns, hvort sem
menn gera sér grein fyrir því eða ekki, hvort sem það er í minni eða
gleymt. Ég er ég.“' Hann segir einnig: „Vitundin um sjálfan sig er frum-
staðreynd, sem ég veit ekki til að nokkur hafi skýrt eða geti skýrt. Og
að koma dauða sínum heim og saman við þessa grunnkennd, þessa
frumlægustu reynslu, upplifun sjálfs sín, það er ekki gerlegt, ekki á færi
manns“ (bls. 55).
Sálmurinn „Um dauðans óvissan tíma“ er glíma við þessa ósættan-
legu mótsögn mannlegrar tilveru. Það kemur best fram þegar skáldið
í sjöunda erindi beinir staðreyndum dauðans skyndilega að sjálfum sér
og spyr, næstum hæðnislega: Fæ ég undanþágu? Því svarar hann vita-
skuld neitandi. En hann á líka annað svar sem vegur þyngra. Gegn
dauðans grimmd teflir hann fram hjálpræðisverki Krists og leggur
þunga áherslu á að þannig bjargaði Kristur „mér“. Hallgrímur eyðir
ekki mörgum orðum að því hvernig eilífa lífið lýsir sér. Hugur hans er
ekki bundinn við hljóðfæraslátt, ilm og ávexti í himnaríki eins og mikil
áhersla er lögð á í sálmum ýmissa samtímaskálda hans, t.d. Bjarna
skálda Jónssonar. Eilífa lífið er fyrir Hallgrími fólgið í því að Kristur
hefur eytt þeirri mótsögn sem dauðinn hlýtur að vera hverjum manni.
1 Sigurbjörn Einarsson: „Spurningar um dauðann“, Lifandi von. Kristin trú
og dauðinn, Reykjavíkurprófastsdæmi, Reykjavík 1984, bls. 54.