Skírnir - 01.09.1990, Page 32
284
MARGRÉT EGGERTSDÓTTIR
SKÍRNIR
Sálminn „Herra Jesú, ég hrópa á þig“ er eðlilegt að nefna andlátssálm
þar sem skáldið talar þar um sjálft sig andspænis dauðanum. Dauðinn
virðist þó ekki mjög nálægur; það er ekki að sjá að líkamlegur sjúkleiki
hrjái skáldið en hjartað er hrellt, öndin angruð og „sútakafið súrt“ (bls.
210). Hér er nokkrar samlíkingar sem koma einnig fyrir í Passíu-
sálmunum. I sálminum „Guð komi sjálfur nú með náð“ er hins vegar
lýst örri hrörnun líkamans: augum fölnar sýn, heyrn förlast, máttur
þrýtur í höndum og fótum. Auk þess er lýst sjúkdómi: líkaminn allur
er særður sótt. Dauðinn er jafnógnvænlegur og fyrr: „í gegnum dauð-
ans grimma hlið“ biður skáldið Krist að leiða sig (bls. 214). Guði er í
þessum sálmi á ýmsan hátt líkt við móður. Hann er bæði beðinn að
leggja skáldið á náðarbrjóst og vera ljósmóðir þess. Dauðanum,
aðskilnaði líkama og sálar, er líkt við fæðingu. Talað er um að vefja sig
inn í sár Jesú sem er dæmigerð mystísk hugmynd. Jakob Jónsson hefur
bent á mystískar samlíkingar í kveðskap Hallgríms Péturssonar1 og eins
og áður hefur komið fram er ljóst að Hallgrímur hefur þekkt og notað
Manuale eftir Martin Moller þar sem sambandi manns og guðs er víða
lýst mjög innilega í anda kristinnar dulhyggju.
Ekki er ólíklegt að sálmurinn „Enn ber ég andarkvein“ sé síðasti
sálmur Hallgríms. Af honum er að ráða að banalegan hafi verið löng og
ströng en samt er það erfiðasta eftir, sjálfur dauðinn. Skáldið talar um
að „holdsins hús“ (bls. 203) hans muni hyljast hjúpi sem minnir á orð
Páls í II. Kor. 5,1 um „að þótt vor jarðneska tjaldbúð verði rifin niður,
þá höfum vér hús frá Guði, eilíft hús á himnum, sem eigi er með
höndum gjört“. Frá 23. erindi hefst eins konar „erfðaskrá“ þar sem
skáldið ráðstafar öllu og lætur í ljós óskir varðandi útförina. Frágangur
hans er bæði andlegur og veraldlegur. Hann biður þess að hann deyi
sáttur við alla menn. Hann biður um góða menn til þess að taka sér gröf
og til þess að vaka yfir líkinu. Einnig biður hann þess að hann láti engin
orð út úr sér sem stefni honum í sálarháska. Það er honum mikilvægt
að fá kvöldmáltíðarsakramentið. Hann biður um heilagan anda og um
mjúkt andlát og að Kristur sjálfur svæfi hann. Loks biður hann þess að
engum stafi ótta af honum látnum. Hér er einnig hin sígilda andlátsbæn
að biðja Guð að meðtaka anda mannsins og fela sálina í hendur Guðs.
Skáldið biður þess ennfremur að það verði „þekkur þjónn Guðs“ sem
1 Jakob Jónsson: Um Hallgrímssálma og höfund þeirra, Grund, Reykjavík
1972.