Skírnir - 01.09.1990, Side 37
SKÍRNIR
.DEYÐU Á RÉTTUM TÍMA'
289
I
„Deyðu á réttum tíma!"1 Þessu heilræði fleygir þýzki heimspekingur-
inn Friedrich Nietzsche fyrirvaralaust framan í lesendur, svo að þeir
standa á öndinni af heilabrotum: Hvað á hann við? Yfirskrift kaflans í
Also Spracb Zarathustra, þar sem þetta birtist, er „Vom Freien Tode“
sem þýðir orðrétt „Um frjálsan dauða“ en mætti líka íslenzka sem
sjálfsvíg. Það er engu líkara en Nietzsche sé að hvetja menn til þess að
taka eigið líf frjálsri hendi í stað þess að vera lagðir að velli af utan-
aðkomandi orsökum, oft eftir langa sjúkdómslegu. Samkvæmt þessari
túlkun2 er það hámark mannlegs sjálfræðis og siðferðisþreks að falla
allsgáður fyrir eigin hendi á réttum tíma, þegar sköpunarkrafturinn er
þrotinn og lífsgleðin að fjara út. „Maður verður að breyta þessari
heimskulega líffræðilegu staðreynd í siðferðilega nauðsyn. Að lifa
þannig að maður geti líka viljað deyja á réttum tíma.“3
En þótt þessi skilningur á orðum Nietzsches kunni að liggja beint
við, ætla ég að leyfa mér að leggja út af þeim á annan hátt. Ég tek þá
áhættu að Nietzsche snúi sér við í gröfinni þegar ég segi að orð hans
„deyðu á réttum tíma“, minni mig á hugsun heilræðasmiðsins Hall-
gríms Péturssonar sem kveður í Kristí krafti: „Kom þú sæll, þá þú
vilt.“4 Því þótt þeir Hallgrímur og Nietzsche fari ólíkt að sýnist mér að
sú dauðatilhugsun, sem liggur í þessum setningum þeirra um dauðann,
furðu lík. Ráðið til þess að deyja á réttum tíma felst ekki í því að ákveða
dauðastund sína, eins og Nietzsche gefur í skyn, heldur í því að temja
sér ákveðna afstöðu til lífsins og dauðans. Það er einungis hœgt að
„ deyja á réttum tíma“ íþeim skilningi að maður sé reiðubúinn að deyja
hvenær sem er. En það jafngildir því að segja að ég sé tilbúinn að mæta
1 Friedrich Nietzsche, „Vom FreienTode", Also Sprach Zarathustra (Leip-
zig: P. Reclam 1883), Fyrsti hluti.
2 Sjá t.d. Karl Jaspers, Nietzscbe. Einfúhrung in das Verstándnis seines
Philosophierens (Berlin: de Gruyter 1935), 2. bók, 5. kafli.
3 Friedrich Nietzsche, Der Wille zur Macht (Leipzig: C.G. Naumann 1901),
§916
4 Hallgrímur Pétursson, „Allt eins og blómstrið eina.“ Sálmabók íslensku
kirkjunnar (Reykjavík: Kirkjuráð 1988), nr. 273, s. 266-70.