Skírnir - 01.09.1990, Page 38
290
VILHJÁLMUR ÁRNASON
SKÍRNIR
dauða mínum, ekki þegar mér sjálfum sýnist, heldur nákvæmlega á
þeim tíma sem dauðanum þóknast. Það er hinn rétti tími og sé ég búinn
undir hann, eins og ég hlýt að vera sé ég reiðubúinn að deyja hvenær
sem er, þá dey ég á réttum tíma. Og þannig má líka útleggja orð
Hallgríms Péturssonar þegar hann yrkir sig í sátt við dauðann: „Kom
þú sæll þá þú vilt“.
Þessi niðurstaða þeirra Nietzsches og Hallgríms er þó fengin á ger-
ólíkum forsendum, eins og nærri má geta. Hallgrímur yrkir sín sáttar-
orð um dauðann með hjálp kristinnar trúar sem veitir honum ljós í
myrkum mannheimi. Kristur hefur sigrað dauðann og sá sem hefur
tileinkað sér grunnhugsun faðirvorsins, „verði þinn vilji“, getur í
æðruleysi lifað við dauðabeyginn því að allt er í Guðs hendi. Nietzsche
aftur á móti slær sinni ögrandi hugsun fram í veröld þar sem „Guð er
dauður“ og menn geta ekki reitt sig á neitt nema eigin mátt og menn-
ingu til að gefa lífi sínu merkingu. En þennan mátt er ekki hægt að
virkja fyllilega til skapandi lífs nema með því að ná sátt við sjálfan sig
og veruleikann.1 Þessi sátt er ekki fengin með ávísun á annað líf; þvert
á móti felst hún í því að fagna jarðnesku lífi eins og það er: „Forskrift
mín að mikilleik manneskjunnar er amor fati: að maður vilji ekkert
öðru vísi en það er - hvorki fram á við né aftur á bak, aldrei að eilífu.
Ekki bara að láta það ganga yfir sig, ennþá síður að hylma yfir það [...]
heldur elska það.“2 Að elska örlög sín er ekki sízt að sætta sig við eigin
dauðleika - sjá takmarkanir sínar sem forsendur skapandi lífs. Hugsun
Nietzsches er sú að þeir sem ekki geti lifað á réttum tíma geti ekki
heldur dáið á réttum tíma. Dauðinn kemur þeim alltaf að óvörum því
að þeir eru ósáttir og þjást yfir mannlífinu eins og það er.
Þessi afstaða til dauðans er því lykill að lífernislistinni. Dauðinn er
óvéfengjanleg staðreynd sem fyrir liggur og því er affarasælast að láta
1 Um þetta segir Vibeke Engelstad: „Að lifa í sátt við tilveruna eins og hún
er táknar ekki að við afneitum hæfni okkar til að vega og meta hlutina og
dæma hvað hefur gildi og hvað er forkastanlegt. Öðru nær. Því raunsærri
sem við erum þeim mun meiri eru möguleikarnir að styðja það sem við
teljum til gagns og ánægju og berjast gegn því sem er rangt, skaðlegt og
smámunalegt." Ríki mannsins, þýðandi Skúli Magnússon (Reykjavík:
Iðunn 1980), s. 15.
2 Friedrich Nietzsche, Ecce homo (Leipzig: Insel-verlag 1908), §10. Þessi
afstaða einkennir „ofurmennið", sem er það hugtak sem oftast er misskilið
í heimspeki Nietzsches.