Skírnir - 01.09.1990, Síða 41
SKÍRNIR
.DEYÐU Á RÉTTUM TÍMA'
293
Cicero gengur hvað lengst í þessu efni því hann tekur viðbrögð manna
við dauða sínum til marks um vitsmuni þeirra: „Hvernig stendur á því
að hinir vitrustu menn taka dauðanum af mestu jafnaðargeði, en þeir
sem heimskastir eru af mestri örvæntingu?"1
Það kveður við annan tón í ritum svokallaðra „existensíalista" eða
tilvistarspekinga sem margir hafa gert dauðann að viðfangsefni á síðari
árum.21 þeirra augum er dauðinn ekki bara lokaatburður í sögu hvers
einstaklings, heldur er hann meginstefið í þeim söguþræði sem hver
einstaklingur spinnur með lífi sínu. Guðfræðingurinn Paul Tillich notar
aðra líkingu, ekki ósvipaða: „Dauðinn er ekki bara skærin sem klippa
á lífsþráðinn, eins og fornfrægt tákn sýnir hann. Hann er frekar einn
þeirra þráða sem ofinn er í lífsmynztrið, frá vöggu til grafar.“3 Með
vitundinni um dauðann vaknar meðvitund manna um sjálfa sig sem
einstaklinga sem verða að taka ábyrgð á eigin lífi. Dauðavitund manns
virðist þannig opna augu hans fyrir frelsinu. Við upplifum þetta samflot
dauða og frelsis í angistinni, því sú tilfinning er í senn meðvitund um
að ég hljóti að deyja og að ég komist ekki hjá því að velja um lífskosti.
Tilraunir til að afneita dauðanum taka líka á sig sömu mynd og flóttinn
frá frelsinu. í báðum tilvikum ferst einstaklingnum líkt og Pétri Gaut;
hann hlýðir ráði beygsins og flýr sjálfan sig.4 Um leið hverfist hann um
sitt eigið sjálf, slítur tengsl sín við annað fólk og angistarfull einsemdin
lúrir í myrkrunum.
Angist er ólík hræðslu í því að við erum hrædd við eitthvað tiltekið,
sem hægt er að benda á, en angist manna beinist að einhverju ótilteknu
sem erfitt getur verið að koma orðum að. Séum við spurð hvað valdi
okkur hugarangri höfum við tilhneigingu til þess að yppta öxlum og
segja „æ, það er ekkert“, þótt angistin nagi okkur. Tilvistarspekingar
hafa gert sér mat úr þessu svari og bent á að þetta ekkert sé þrungið
1 Ciceró, Um ellina, Kjartan Ragnars þýddi (Reykjavík: Hið íslenzka bók-
menntafélag 1982), s. 86.
2 Sjá t.d. John MacQuarrie, Existentialism (Harmondsworth: Penguin Books
1972), s. 164-171 og 193-199 og Johannes Slok, Existentialisme (Koben-
havn: Berlingske Forlag 1966), einkum 12. kafli: "Angsten". Af íslenzkum
heimildum um tilvistarstefnuna sjá t.d. grein Páls Skúlasonar, „Tilvistar-
stefnan og Sigurður Nordal,“ Skírnir 161 (haust 1987), s. 309-336.
3 Tke Shaking of the Foundations (New York: Scribners 1948), s. 169.
4 Henrik Ibsen, „Pétur Gautur“, þýðing Einars Benediktssonar, Ljóðmæli I.
bindi (Reykjavík: Isafoldarprentsmiðja 1945), s. 141-391.