Skírnir - 01.09.1990, Page 42
294
VILHJÁLMUR ÁRNASON
SKÍRNIR
merkingu vegna þess að angistin beinist ekki að ytri fyrirbærum sem
við getum afmarkað og hugsanlega rutt úr vegi, heldur að sjálfum
grunni mannlegrar tilveru. Þar með kemur í ljós að hið óræða, sem við
treystum okkur ekki til að koma orðum að, er ekki síður allt en ekkert.
Angistin er sú tilhugsun eða óljósi grunur að allt sem máli skiptir verði
að engu gert. Þessi spenna er aflvaki mannlífsins því átökin standa „á
milli einskis og als líkt og jafnan þarsem sköpun er á dagskrá,“ eins og
William Heinesen kemst að orði.1
Angistarfull vitund manneskjunnar um endalok eigin lífs og um þá
staðreynd frelsisins að hún verður sjálf að semja lífssögu sína, er þannig
óaðskiljanleg frá hugsun hennar um merkingu mannlegrar tilveru og frá
þeirri ábyrgð sem fylgir því að lifa sem manneskja. Það er síðan lykil-
spurning hvernig okkur tekst að lifa með þessari dauðans angist og
vinna úr henni. Tekst okkur að leyna henni aða afneita fram á dauða-
stund, eins og Ivan Ilyich, eða getum við virkjað hana til skapandi
merkingarríks lífs? Spurningin snýst um hvað manneskjan gerir úr lífi
sínu, hvernig hún nær að gæða það merkingu og þiggja þau gæði sem
það býður upp á. Þetta er sú spurn sem hver einstaklingur stendur
frammi fyrir þegar hann verður meðvitaður um þá sögu sem hann er að
semja með lífi sínu. Því líf einstaklingsins er saga sem hann skrifar við
ákveðin lífskilyrði og með vitundinni um dauðann opnast augu hans
fyrir því að hann einn heldur á penna, þótt bæði blekið og bókfellið séu
þegin í arf. Enginn annar verður krafinn um reikningsskil fyrir það
hvernig hann lifði, hann einn ber ábyrgð á því hvernig hann deilir lífi
sínu með sjálfum sér og öðrum.
Þetta eru þröng tilvistarkjör og á erfiðum stundum getur vitundin
um þau fyllt menn örvæntingu. Sú kristna lausn sem Hallgrímur
Pétursson lýsir og hin frumspekilega sátt við veruleikann sem
Nietzsche boðar geta hvor með sínum hætti verið lyf við slíku vonleysi,
séu þau tekin í réttum skömmtum. I báðum tilvikum felst lækninga-
mátturinn í því að láta af tilburðum til þess að stjórna því sem maður
ræður ekki við, sætta sig við takmarkanir sínar, og virkja þá krafta sem
maður ræður yfir til skapandi lífs. Þannig byggja menn upp heilbrigðan
grunn til að standa á í lífinu, öðlast þá sálarheill sem gerir þeim fært að
gefa af sjálfum sér í ást og vináttu. Með því að láta af þröngri sjálfs-
1 Töfralampinn, þýð. Þorgeir Þorgeirsson (Reykjavík: Forlagið 1987), s. 94.