Skírnir - 01.09.1990, Page 48
300
VILHJÁLMUR ÁRNASON
SKÍRNIR
samskipta. í framsetningu siðalögmálsins hljóðar hugsun hans svo:
„Komdu aldrei þannig fram við nokkra manneskju, sjálfa þig eða aðra,
að þú sért bara að nota hana í einhverju skyni, heldur ber þér jafnframt
að virða hið sjálfstæða takmark sem sérhver persóna hefur með lífi
sínu."1 Kant gerir sér auðvitað grein fyrir því að fólk hefur margvísleg
not hvert af öðru og að þau eru oftast fyllilega réttmæt. Sú afstaða sem
felst í siðalögmálinu er að manneskjan er ekki tæki til að ráðskast með,
heldur ber að virða siðferðilega skynsemi hennar og sjálfræði. Röng
breytni birtist í því að við látum nota okkur sjálf eða misnotum aðra
með því að beita þeim fyrir okkur í því skyni að ná fram eigingjörnum
markmiðum.
Þetta atriði vekur athyglisverðar spurningar um muninn á þeim
siðferðilegu skyldum sem við höfum gagnvart dýrum og manneskjum.
A undanförnum áratugum hefur mikið verið ritað um siðferðis- og
réttarstöðu dýra og eru þar ýmis merkileg deiluefni.2 Sú afstaða sem
mér virðist hvað skynsamlegust í þessu efni hefur verið kölluð
„nytjastefna fyrir dýr, kantísk siðfræði fyrir fólk“.31 þessu felst að sið-
ferðilegar skyldur við dýr takmarkast við velferð þeirra og okkar, en
eru ekki afdráttarlausar eins og skyldur okkar við manneskjur. Annars
væri það óverjandi að slátra dýrum og hafa þau til manneldis. Einnig
getur verið réttlætanlegt að nota þau í tilraunaskyni ef miklir hagsmunir
eru í húfi og meðferð okkar á þeim er mannúðleg, þ.e. veldur þeim ekki
óþarfa þjáningu. Þess vegna aflífum við líka dýr fremur en að láta þau
þjást. Samkvæmt þessu þurfum við einkum að taka tillit til þess í
samskiptum okkar við dýr að þau finna til og þola illa sársauka.4
1 Immanuel Kant, Grundlegung zur Metaphysik der Sitten (Riga: J.F.
Hartknoch 1785), 2. kafli. The Moral Law. Kant's Groundwork ofthe
Metaphysic of Morals, ensk þýðing H.J. Paton (London: Hutchinson 1948),
s. 90-91.
2 Sjá t.a.m. Tom Regan og Peter Singer, ritstj., Animal Rights and Human
Obligations. Englewood Cliffs, NJ: Prentice-Hall 1976.
3 Robert Nozick, Anarchy, State and Utopia (New York: Basic Books 1974),
s. 39. Nozick setur ýmsa fyrirvara um þetta. Það er e.t.v. ástæða til að taka
fram að mér finnst skilningur Nozicks á stöðu dýra taka mannskilningi
hans fram. Um nytjastefnu sjá ritgerð Kristjáns Kristjánssonar,
„Nytjastefnan,“ Skírnir (vor 1990), s. 125-150.
4 „Dýr geta yfirleitt ekki lifað eðlilegu lífi ef þau finna til verulegs sársauka,
heldur veslast þau upp og deyja. Þess vegna er það oftast miskunnarverk