Skírnir - 01.09.1990, Page 51
SKÍRNIR
.DEYÐU Á RÉTTUM TÍMA'
303
III
Með hjálp Immanúels Kant hef ég nú dregið fram nokkra grund-
vallarþætti mannlegs siðferðis í ljósi hugsunarinnar um manneskjuna
sem dauðlega, andlega veru. Þessar hugmyndir eru vitaskuld almennt
orðaðar hér og hinn siðferðilegi vandi felst í því að koma þeim í verk
við raunverulegar aðstæður. Það er verkefni hvers einasta manns í
samskiptum sínum við annað fólk, hvort heldur er meðal fjölskyldu og
vina, á vinnustað eða öðrum vettvangi dagsins. Það er breytilegt eftir
því hver við erum hvernig þessar skyldur horfa við okkur. Það fer þó
varla á milli mála að þær eru kjarninn í starfi allra þeirra stétta sem vinna
með fólk(i). Þessar starfsstéttir eru margskonar, en ég mun ræða hér
sérstaklega um siðferðilegar skyldur heilbrigðisstétta. Heilbrigðisstéttir
vinna með sjúku, slösuðu og stundum deyjandi fólki sem þarfnast
skilnings og sjálfræðis, sanngirni og réttlætis engu síður en þeirrar
hjálpar sem þessar stéttir einar geta veitt. Þessum siðferðilegu skyldum
er ekki þröngvað upp á heilbrigðisstéttir utan frá, heldur liggja þær í
hlutarins eðli. Þar eð viðfangsefnið er manneskja sem þarfnast hjálpar
verður þetta ekki í sundur skilið. Hver einasta snerting, hvert einasta
orð í mannlegum samskiptum getur haft siðferðilega þýðingu. I
samskiptum læknis og sjúklings magnast þessi þýðing stundum um
allan helming vegna þess hve mikið getur verið í húfi.
Virðingin fyrir sjúklingnum sem manneskju - virðing fyrir velferð
hans og sjálfræði - á að vera grundvöllur allrar heilbrigðisþjónustu. Það
getur verið vandi að finna rétt jafnvægi umhyggju og sjálfræðis.
Umhyggja fyrir velferð sjúklings kemur t.d. oft fram í viðleitni til þess
að taka af honum ráðin, vitanlega í beztu meiningu. Svo aðeins eitt
dæmi sé nefnt, er dómgreind aldraðra iðulega vantreyst, ekki tekið
mark á vilja þeirra og þeim ráðstafað í samræmi við það sem þeim er
talið vera fyrir beztu. Reglan að gæta velferðar sjúklingsins á sér djúpar
rætur í hugmyndafræði heilbrigðisþjónustu, sem einkennzt hefur af
mikilli forræðishyggju.1 Minna hefur aftur á móti farið fyrir hug-
1 Guðmundur Pétursson, læknir, lýsir þessu þannig: „Með þessu hugtaki er
átt við þá tilhneigingu læknis að vilja hafa vit fyrir sjúklingi í krafti
þekkingar sinnar og reynslu og jafnvel taka ákvarðanir um meðferð fyrir
20 — Skírnir