Skírnir - 01.09.1990, Page 55
SKÍRNIR
.DEYÐU Á RÉTTUM TÍMA'
307
eina hugmynd sem ég held að geti dregið verulega úr hættunni á því að
deyjandi fólk sé meðhöndlað á einhvern hátt sem misbýður því eða
vanvirðir það sem manneskjur. Þetta er hugmynd sem ég hef kennt við
samrœðusiðfræði og snýst um það hvernig við getum bezt virt hvert
annað sem siðferðilegar persónur.1 Hugmyndin er grundvölluð á þeirri
staðreynd að mannleg samskipti eiga sér yfirleitt stað í formi samræðna
í víðum skilningi þess orðs, og er þá látbragð allt og það sem er ósagt
látið ekki undan skilið. Það er líka mikilvæg staðreynd um samræður
að ásamt því að reyna á dómgreind manns og skilning eru þær ákjósan-
legur farvegur fyrir tilfinningalega tjáningu. Þannig opnar samræðu-
hugmyndin leið til þess að gera grein fyrir þeim kostum sem einstak-
lingum er gefinn á að rækta frelsi sitt með heiðarlegum og einlægum
tjáskiptum. En undirstaða siðferðilegrar virðingar fyrir manneskjunni
er einmitt sú að gera henni kleift að rækta frelsi sitt í lengstu lög.2 Þetta
getur líka verið viðmiðun um leiðir til þess að lina þjáningar deyjandi
manneskju, þótt ég hætti mér ekki út í þá umræðu hér.
Greina þarf á milli tvenns konar samræðumarkmiða, eftir því hvort
um er að ræða þann þátt sem Kant kallar virðingu fyrir sjálfræði
persónunnar, eða þann þátt sem hann kennir við kærleikann og varðar
tilfinningalegan stuðning eða umhyggju. Tveir eiginleikar í fari manna
eru nauðsynlegir til þess að leggja stund á siðferðilegar samræður. Ég
kalla þessa eiginleika samræðuvilja og samræðuhæfni. Með sam-
rœðuvilja á ég við vilja til þess að taka þátt í samræðum og lúta
lögmálum þeirra, að tjá sig og hlusta á aðra, og með samrœðuhœfni á ég
í þessu tilviki við getu til þess að geta gefið af sér, verið heiðarlegur og
einlægur og geta sett sig í spor annarrar manneskju. Þetta eru hvort
tveggja eiginleikar eða mannkostir sem allir hafa eða ættu að geta
tileinkað sér og til þess er iðkun samræðna raunar bezta leiðin.3
1 Vilhjálmur Árnason, „Siðfræðin og mannlífið. Frá sjálfdæmishyggju til
samræðusiðfræði," Hugur. Tímarit um heimspeki 1 (1988), s. 49-78.
2 Þetta er t.a.m. meginstefið í umfjöllun Bernards Háring um dauðann í
bókinni Medical Ethics (Middlegreen: St. Paul Publications 1974). Sjá 7.
kafla: „The Death of Man“.
3 Pémr Pémrsson læknir harmar að þetta hafi verið vanrækt í menntun lækna
og heldur því fram að kenna þurfi meiri heimilislæknisfræði sem kynni
læknum „eðli tjáskipta og [...] að leggja heildrænt mat á allt ástand
sjúklingsins og aðstæður". „Að lækna með sýklalyfjum - mjótt er
mundangshófið“, Læknablaðið, 2 (1986), s. 44-51.