Skírnir - 01.09.1990, Page 56
308
VILHJÁLMUR ÁRNASON
SKÍRNIR
Þessum markmiðum verður þó ekki náð nema fólk gefi sér þann
tíma sem eiginlegar samræður krefjast. Því tíminn er ekki bara skilyrði
allrar skynreynslu, eins og Kant benti á, heldur einnig farvegur og
forsenda siðferðilegs lífs. Engu er líkara en að lífshættir okkar og
samfélagsskipan ali á tímaskorti og það því meir sem hagsældin eykst.1
í lífsþægindakapphlaupi velferðarsamfélagsins rennur elfur tímans
hraðar en nokkru sinni fyrr og fólk berst með straumnum. Tíma-
skorturinn bitnar á nánum mannlegum samskiptum því þau krefjast
þolinmæði og sjálfsframlags sem við höfum ekki tíma fyrir. Þetta gildir
jafnvel líka um sjúkrastofnanir, þar sem læknar eru tímabundnastir
allra. Við þessar aðstæður getur lítilmagninn sem þarf tímafreka
umönnun orðið eins og tímaþjófur. Myndin af deyjandi manneskju
fellur ekki vel inn í þetta samfélag þar sem orðið er æ erfiðara að lifa og
deyja á réttum tíma. Samt verður ekki horft fram hjá því að fólk ræður
sjálft miklu um það hvernig það ver tíma sínum og með því afhjúpar
það eigin verðmætamat. Þótt samræðuaðstæðurnar séu knappar, erum
það við sjálf sem ræðum saman og berum ábyrgð á því hvernig við
komum fram hvert við annað.
IV
Víkjum fyrst að þeim samræðum sem hafa að markmiði virðingu fyrir
sjálfræði manneskjunnar. Grundvöllur þeirra er heiðarleiki við
sjúklinginn svo að hann viti hvað að honum er og geti tekið þátt í
ákvörðunum um þá meðferð sem hann gengst undir. Til að geta nýtt sér
þennan rétt verður hann að fá greinargóða vitneskju um sjúkdóms-
greiningu, möguleg meðferðarúrræði og þær áhættur, óþægindi og
aukaverkanir, sem þeim eru fylgjandi, og batahorfur. En hér hefur hin
föðurlega forsjá í heilbrigðisþjónustu lengi staðið í vegi:
Læknirinn hefur ekki talið það ómaksins vert að útskýra þessi mál fyrir sjúklingi eða
vandamönnum hans, en freistast til þess að taka ákvarðanir sem varða líf sjúklinga og
heilsu á eigin spýtur á þeim forsendum að sjúklingurinn geti hvort eð er ekki skilið
eða metið hin læknisfræðilegu rök.2
1 Sbr. Gylfa Þ. Gíslason, „Hagsæld, tími og hamingja,“ í samnefndu
greinasafni (Reykjavík: A.B. 1987), s. 3-16.
2 Guðmundur Pétursson, „Siðareglur lækna: Ný sjónarmið?“, s. 10-11.