Skírnir - 01.09.1990, Page 59
SKÍRNIR
,DEYÐU Á RÉTTUM TÍMA'
311
Einlægar og opinskáar samræður sem miða að gagnkvæmum skilningi
læknis og sjúklings er ákjósanlegt vinnulag sem virkjar ábyrgð beggja.
Slíkar samræður leyfa hvorki valdbeitingu né blekkingu, en þær fela
það hins vegar í sér að læknir eða hjúkrunarfræðingur upplýsi sjúkling
um þá kosti sem hann hefur, ráðleggi honum og jafnvel hvetji hann til
þess að gera eitt fremur en annað. Séu samræður aftur á móti notaðar
sem „diplómatísk“ aðferð fyrir starfsfólkið til að fá vilja sínum fram-
gengt, án tillits til óska sjúklingsins, er samræðuformið í raun orðið að
duldri þvingunarleið. Á þessu er alltaf nokkur hætta því sjúklingurinn
er í tvennum skilningi „veikari" aðilinn í samskiptunum og verður að
reiða sig á fagfólkið.
Vitneskja sjúklings um ástand sitt verndar líka stöðu hans sem
sjálfstæðrar persónu. Sá sem velkist í vafa eða vanþekkingu verður enn
háðari heilbrigðisstarfsfólki en ella og hann verður ófær um að gera
raunhæfar áætlanir og ganga frá sínum málum. Ef til vill verður hann
meðfærilegri fyrir vikið en um leið eykst hættan á að hann sé mis-
notaður og ofurseldur föðurlegu forræði. Þar með verður sjúklingurinn
ófær um að taka ábyrgð á því hvernig hann lifir með sjúkdómi sínum,
en í flestum tilvikum er það afar mikilvægur þáttur í læknismeðferð,
jafnvel þótt ekki sé um batalíkur að ræða. Oft er sjúklingum líka skylt
að gera sér grein fyrir ástandi sínu til þess að geta tekið nauðsynlegar
ákvarðanir.
Það er því sjálfsögð meginregla í heilbrigðisþjónustu að virkja sjúk-
linginn til þátttöku í ákvörðunum um eigin meðferð. Alltof algengt er
að sjúklingum sé einfaldlega tilkynnt hvað eigi að gera við þá og að þeir
viti ekki einu sinni að þeir eigi einhvers annars úrkosta. Þetta eru
forkastanleg vinnubrögð sem vanvirða sjúklinginn og varða auk þess
við siðareglur lækna:
Læknir skal, eftir því sem tök eru á, útskýra fyrir sjúklingi eðli og tilgang rannsókna
eða aðgerða, sem hann gerir eða ráðleggur sjúklingnum. Þess skal ávallt gætt og ef
með þarf, skal sjúklingi gert það ljóst, að læknir ráðleggur, en skipar ekki.1
Starfsfólk og aðstandendur sjúklings geta því þurft að beygja sig fyrir
því að hann hafni tiltekinni meðferð, jafnvel læknismeðferð sem gæti
1 „Læknafélag Islands. Codex ethicus. Siðareglur lækna samþykktar á
aðalfundi 1978.“ Læknablaðið 73 (1987). Handbók um siðamál lækna,
Örn Bjarnason sá um útgáfuna. Vitnað er til greinar II. 5.