Skírnir - 01.09.1990, Qupperneq 62
314
VILHJÁLMUR ÁRNASON
SKÍRNIR
til að deyja ef hann biður um það ? Svarið við þessu veltur á því hvað
við er átt með því að fá hjálp til þess að deyja. Rétt sjúklings til þess að
fá að deyja verður að vera hægt að tengja með einhverjum hætti við
skyldur lækna og hjúkrunarfólks og siðferðileg markmið starfs þeirra.
Það getur aldrei samrýmzt þessum skyldum að heilbrigðisstarfsfólk
grípi til aðgerða sem beinlínis og vísvitandi orsaka dauða sjúklings,
hversu þjáður sem hann kann að vera. Þar eru önnur og mikilvægari
verðmæti í húfi, ekki sízt grundvallarlögmál heilbrigðisþjónustu.1
Frelsið til þess að deyja verður því að skilja neikvæðum skilningi,
þannig að sjúklingur sé laus undan óréttmætum afskiptum heil-
brigðisstétta, sem valda honum einungis böli og varna honum að deyja,
en ekki þannig að hann eigi tilkall til þess vera sviptur lífi.2
Einnig verður að hafa margs konar fyrirvara á því að taka mark á
sjúklingi sem ber fram slíka bón eða að túlka hana sem dauðaósk. Allt
eins getur verið um að ræða neyðarkall manneskju sem þarfnast and-
legrar umhyggju. Það er hlutverk heilbrigðisstétta í slíkum aðstæðum
að leitast við að sætta sjúkling við hlutskipti sitt eins og kostur er með
því að virða þarfir hans og tilfinningar. Þetta er mannúðleg meðferð
þegar manneskja á í hlut - að auðvelda henni að deyja eins vel og kostur
er, án þess að dauðinn sé ætlunarverk læknis eða bein afleiðing af
gerðum hans. Skilningur minn á því að deyja á réttum tíma felur það
alls ekki í sér að nokkur maður ráði dauðastund einstaklingsins, heldur
að hann og aðrir geti tekið við dauðanum þegar sá tími er kominn. Þetta
er þó orðið æ erfiðara að meta, ekki sízt í sjúkraaðstæðum þar sem
ríkjandi tilhneiging er að beita öllum tiltækum ráðum til varnar
dauðanum. Slíkar aðgerðir geta verulega aukið á einangrun og einsemd
1 Sbr. t.d. Leon R. Kass, „Arguments Against Active Euthanasia Found By
Doctors At Mecicine's Core,“ Kennedy Institute of Ethics Newsletter, No.
1 1989 og Snorri Páll Snorrason, „Ný þjóðfélagsviðhorf og siðareglur
lækna“, Laknahlaðið 60 (1974), s. 134-35.
2 Af íslenzkum heimildum um þetta efni, sem ég get ekki gert nein
viðhlítandi skil í þessari ritgerð, sjá t.d. Björn Björnsson, „Nokkrar
hugleiðingar um líknardauða," Ulfljótur (1976), s. 172-176, Jónatan
Þórmundsson, „Líknardráp“ Ulfljótur (1976), s. 153-171, Pál Skúlason,
„Um siðfræði og siðfræðikennslu“, Palingar, s. 203-208, Vilhjálm
Árnason, „Líknardauði og líknardráp“, Siðfrœði heilbrigðisþjónustu, s.
55-64, Þorstein Gylfason, Líknardráp, (Háskóli íslands, fjölrit 1981), og
Örn Bjarnason, „Líknardauði," Lœknablaðið 75 (1989), s. 369-371.