Skírnir - 01.09.1990, Page 63
SKÍRNIR
.DEYÐU Á RÉTTUM TÍMA'
315
sjúklingsins og svipt hann merkingarbæru lífi fyrr en ella.1 Nú á fólk
orðið kost á meðferð, bæði á sjúkrahúsum og í heimahúsi, þar sem
áherzlan hvílir á því að létta einstaklingnum dauðann eins og mögulegt
er.2 Verkjameðferð miðast þá við að einstaklingur haldi meðvitund og
mikið er lagt upp úr andlegri aðhlynningu. Þessi atriði eru hvoru
tveggja afar mikilvæg til þess að einstaklingur geti verið með sjálfum sér
og ástvinum sínum síðustu ævistundirnar.
Nú er síðara markmið samræðusiðfræðinnar, að eiga hlutdeild í
tilfinningum og kjörum annarrar manneskju, orðið áleitið. Hér gegnir
samræðan einkum því hlutverki að veita hinum deyjandi tilfinninga-
legan og andlegan stuðning. Það er ábyggilega aldrei hægt að setja sig
fyllilega í spor deyjandi manneskju, en skilningsrík nærvera og hlut-
tekning geta verið ómetanleg til að auðvelda henni dauðann og viðhalda
þeirri tilfinningu að hún hafi gildi sem persóna.3 Hér er það ekki sízt
mikilvægt að hin deyjandi manneskja þurfi ekki að hefta tilfinningaleg
viðbrögð sín til þess að hlífa öðrum og verði þannig ófrjáls. Sú hlið
frelsisins, sem nú snýr upp, er ekki sjálfræði ákvarðana byggt á upp-
lýsingum, heldur frelsið sem felst í því að láta af eiginlegri sjálfsstjórn
og geta sætt sig við eða meðtekið það afl sem allir verða að lúta í
dauðanum. Þetta þýðir ekki það að gefa sig öðru fólki á vald, heldur að
sætta sig við þann mátt sem er æðri öllum mönnum og geta sagt já við
þessari hinztu nauðsyn.4 Með því að kveða sig þannig í sátt við dauðann
hefur einstaklingurinn leyst það lokaverkefni sem lífið leggur honum
á herðar. Að sættast við dauðann er því í raun að viðurkenna mannlegar
takmarkanir og þarmeð að ná fullum sáttum við veröldina: jarðneska
tilvist sína. Sú samræða sem stuðlar að þessu verður þannig líka
1 Sbr. Norbert Elias, Uber die Einsamkeit der Sterbenden (Frankfurt am
Main: Suhrkamp Verlag 1982).
2 Hér á landi rekur Krabbameinsfélag íslands svonefnda Heimahlynningu.
3 Sjá um þetta efni, t.d. Daniel O. Dugan, „Death and Dying. Emotional,
Spiritual, and Ethical Support for Patients and Families,“ Journal of
Psychosocial Nursing 25 (1987), s. 21-29, og Jeanne Quint Benoliel, „Care,
Communication and Human Dignity," Psychosocial Care of the Dying
Patient, Charles A. Garfield, ritstj., (New York: McGraw-Hill Book
Company 1978), s. 34-45.
4 Paul Ricœur, Freedom and Nature: The Voluntary and the Involuntary,
þýð. Erazim V. Kohák (Chicago: Northwestern University Press 1966),
Part III, Ch. 3. „The Way of Conscnt."