Skírnir - 01.09.1990, Page 68
320
SIGURÐUR ÁRNASON
SKÍRNIR
Umræðan um dauðann er mjög vaxandi á Vesturlöndum, og það er
ef til vill að nokkru leyti andsvar fólksins við innrás óskiljanlegrar tækni
læknisfræðinnar í líf okkar. Þessi mikla tækni gefur í skyn að lækning
sé alltaf á næsta leiti og þar með að maðurinn sé fjær dauða sínum en
nokkru sinni. Og hugarfar á nútímasjúkrahúsum hefur breyst með
vaxandi tæknivæðingu: það er erfiðara en áður að sleppa sjúklingnum,
leyfa honum að deyja.
Nútímasamfélagið hefur breytt umgengni sinni við dauðann
samkvæmt þessu og flytur hina deyjandi af heimilinu og inná stofnanir,
sjúkrahús. Þar með fjarlægist almenningur deyjandina enn frekar. Hið
óræða fjarlægist enn, gleymist og hættir í raun að mestu að vera fyrir
fólki í blóma lífsins. Það verður því enn auðveldara að beita afneitun-
inni. Starfsfólk sjúkrastofnana ver sig (oft í hugsunarleysi) með því að
tala sín á milli um sjúkdóma en ekki sjúklinga. Þannig er ekki fátítt, að
talað sé um hjartatilfellið inn á níu-þrjú, og er þá átt við manneskjuna
sem liggur í rúmi númer þrjú á stofu númer níu. Allt þetta er gert í
skjóli atvinnumennskunnar. Og vissulega er slík samræða mun
einfaldari og umfram allt léttbærari en að tala um hann Nikulás
Nikulásson sem er bara fertugur og á fjögur börn ung en er samt að
deyja úr hjartasjúkdómi. Vörn starfsfólksins verður þá fólgin í
ópersónulegri umræðu um sjúkdóm í stað þess að hætta á að vekja upp
óþægilegar tilfinningar með því að setja sig í spor hins deyjandi manns:
„Þetta gæti alveg eins verið ég“! Að sjálfsögðu er afar mikilvægt fyrir
starfsfólk að geta horft á hinn deyjandi úr nokkurri „fjarlægð“, til þess
einmitt að geta sinnt honum sem best. Einungis þannig verða því ljósar
lausnir sem of mikil tilfinningasemi getur skyggt á. Það er til dæmis
nauðsynlegt að vera umburðarlyndur gagnvart aukaverkunum sterkra
verkjalyfja (syfju, velgju), en þær ganga oft yfir á nokkrum dögum, þótt
þær virðist linnulausar til að byrja með. En varnirnar bægja ekki
dauðanum frá og nú eru Vesturlandabúar að átta sig á að það er lélegt
skjól í því að forðast nálægð hins óumflýjanlega, því það er mun þyngra
að fylgjast með dauða ástvinar úr fjarlægð en nánd. Enda hefur komið
í ljós að þeim sem sjá um ástvini sína í heimahúsum og fylgja alla leið,
verður sorgin léttari. Þetta er og álit flestra þeirra aðstandenda sem
notið hafa þjónustu Heimahlynningar Krabbameinsfélags Islands, en
það er þjónusta hjúkrunarfræðinga og lækna sem sinna deyjandi fólki
í heimahúsum.