Skírnir - 01.09.1990, Page 69
SKÍRNIR
ÓTTINN VIÐ DAUÐANN
321
Rétt einsog manneskjurnar taka örlögum sínum á mismunandi hátt,
bregðast þær mismunandi við í dauðastríðinu. Trú og önnur menning
hafa þar mikil áhrif. En oft má rekja til bernskunnar viðbrögð okkar við
vandamálum hins daglega lífs og viðbrögð okkar gagnvart dauðanum
eru engin undantekning, bernskan markar spor þar sem annars staðar.
Hugmyndir barna um dauðann og óttinn við hann fara ekki að
koma fram fyrr en barnið er 2-4 ára, þótt sorgarviðbrögð gagnvart
missi komi fyrr (jafnvel á síðari hluta fyrsta árs). Dauðinn er fjögurra
ára barni vissulega hræðilegur, en ekki óbreytanlegt eða viðvarandi
ástand. Enda er dauðinn í hróplegu ósamræmi og andstöðu við heim
barnsins, sem er fullur lífs, hreyfingar, hróss, skemmtunar og fæðu. Þau
fá einmuna þjónustu, sem margir okkar hinna eldri drengja öfunda þau
af, langt fram eftir aldri! Sumir halda því fram að ungum börnum fæðist
tilfinningin um að vera almáttug, að veröldin snúist bara um þau. Eftir
því sem árin líða verður barninu ljós blekkingin: Mamma er ekki alltaf
til staðar, hverfult skjól. Um 9-10 ára aldur er dauðinn orðinn ljós og
lifandi í huga barnsins. Barninu verður ljóst að dauðinn kemur og
tekur, öryggið er ekki lengur algert. Óttinn tekur við öðru hverju og
getur orðið viðvarandi, stöðugur hjá þeim börnum sem búa við
öryggisleysi.
Þessi ótti bernskunnar tekur á sig ýmsar myndir og birtist kannski
ekki nema stundum sem beinn ótti við dauðann. Oft kemur
dauðaóttinn fram sem ótti við missi og getur fylgt fólki alla tíð.
Guðrún var 62 ára skrifstofumaður austan af fjörðum og hafði nýlega greinst
með langt gengið magakrabbamein sem líklegt var að drægi hana fljótlega til
dauða. Guðrún hafði alla tíð verið einstæð og haldið heimili með bróður
sínum Halldóri sem var þremur árum eldri. Systkinin voru mjög samrýmd,
enda staðið saman allt frá bernsku. Móðir þeirra hafði dáið þegar Guðrún var
sjö ára og systkinin þá lent á vergangi með föður sem oft var óreglusamur.
Guðrún lýsti bróður sínum sem dulum og vinafáum. í raun var hún eini
trúnaðarmaður hans og svo hafði verið allt frá því að þau voru börn. Og nú
var hún að deyja og Dóri bróðir yrði einn eftir. Ég reyndi nokkrum sinnum
að ná til Halldórs, og oftar en einu sinni höfðum við komið okkur saman um
að hittast, en ýmist boðaði hann forföll eða þá kom sem snöggvast og veitti
engin færi á djúpum samræðum. Lyfjameðferð var reynd en Guðrúnu
hrakaði jafnt og þétt. Þess vegna var ákveðið að hætta við meðferðina og var
það gert í fullu samráði við sjúkling. Skyndilega hringdi Halldór í mig og jós
úr sér yfir því að ekki væri reynt meira, það væru til fleiri lyf og svo
framvegis. Ég reyndi að skýra út fyrir honum að slíkt væri ekki í þágu