Skírnir - 01.09.1990, Blaðsíða 70
322
SIGURÐUR ÁRNASON
SKÍRNIR
sjúklings, en Halldór sagði þetta svar mitt bera vott um uppgjöf og vonda
læknisfræði. Og skellti á. Halldór heimsótti systur sína daglega, en forðaðist
að ræða við starfsfólk deildarinnar, sem varð vart við vaxandi spennu milli
þeirra systkina. Hún birtist meðal annars í því að Guðrún fékk meiri verki
og þurfti vaxandi morfínskammta, en þá hafði hún einungis þurft í litlum
mæli áður. Ég kom til Guðrúnar að kvöldlagi og þá sagði hún mér að Halldór
væri afar illur út í mig og starfsfólk deildarinnar. Eiginlega væri hann illur útí
hana líka fyrir að halda ekki meðferðinni áfram. Þetta ætti stóran þátt í að
henni liði verr nú en áður. Hún væri þess vegna að velta fyrir sér að „fara í
meiri meðferð fyrir hann Dóra bróður". Næsta dag sætti ég lagi að koma að
rúmi hennar meðan Halldór var í heimsókn og spurði hann hvort hann vildi
ekki tala við mig. „Ég á ekkert vantalað við þig“ svaraði hann hvasst. Ég
þurfti að taka mig á til að segja: „En ég þarf að tala við þig“. Með semingi kom
hann í humátt á eftir mér. Við fórum inná skoðunarherbergi og um leið og
hurðin lokaðist á eftir okkur brast hann í grát. Eftir nokkra stund gátum við
talað saman og Halldór viðurkenndi að hann væri ekki tilbúinn til að sleppa
henni systur sinni. Honum varð smám saman ljóst að ef hún fengi meiri
meðferð þá væri það gert fyrir hann, og myndi sennilega aðeins auka kvöl
hennar en ekki minnka. Við ræddum svo saman þrjú og þar með féll spennan.
Þörf Guðrúnar fyrir verkjalyf fór í það horf sem áður var og hún andaðist í
svefni hálfum mánuði síðar.
Ef foreldrar sinna barni sínu lærist því oftast að hemja óttann -
barnið finnur aðferðir til þess að ýta honum frá, þannig að það geti
sinnt lífinu. Oryggiskennd verður þannig forsenda eðlilegs þroska,
enda þótt fólk sem elst upp við umtalsvert öryggisleysi geti orðið snill-
ingar (t.d. Ingmar Bergman, sjá sjálfsævisögu hans Laterna Magica).
Öryggiskennd er meðal annars fólgin í því að vita að maður verður
ekki yfirgefinn, að séð verði fyrir frumþörfunum. Sultur og verkir valda
þess vegna öryggisleysi. Gott dæmi um þetta eru sjúklingar sem hafa
verið með verki langtímum saman: Öryggi þeirra hverfur, þeir hætta að
geta starfað, hugsun þeirra öll snýst um verkinn. Þess vegna er góð
verkjameðferð ein meginforsenda þess að sjúklingar geti verið sjálfum
sér og öðrum til ánægju. Hafi manneskja, hvort sem hún er „heilbrigð“
eða sjúk, næga öryggiskennd, þá eitrar dauðinn ekki lífið stöðugt. En
ef við erum minnt nægilega mikið og oft á dauðann, einsog gerist í
sífellu þegar unnið er með deyjandi fólki, þá er hætt við, ef ekki er að
gætt, að forði öryggiskenndar geti brunnið upp. Við brennum smám
saman upp til agna ef við gætum ekki hvert annars.