Skírnir - 01.09.1990, Page 73
SKÍRNIR
ÓTTINN VIÐ DAUÐANN
325
nauðsynlegur til þess að geta lifað, en óttinn við dauðann verður okkur
óbærilegur nema við afneitum honum, felum hann til þess að geta snúið
okkur að öðru, nefnilega því að lifa.
Einhver segir : „Auðvitað veit ég að ég dey einhverntíma, en mér er
sama. Því það er svo gaman að lifa og ég er upptekinn við það.“
En hvað er þetta annað en bæling óttans. Aðferð til þess að bægja
honum frá til þess að geta lifað?
Það er auðvelt að fá fólk til þess að fella varnirnar. Það er til dæmis
vel þekkt aðferð í þjálfun starfsfólks á sjúkrahúsum að setjast saman í
smáhópa og segja því að það eigi að ímynda sér að það muni deyja
innan fárra klukkustunda. Og segja frá hugsunum sem slíkt vekur. Það
veit enginn nema sá sem verið hefur í slíkri hópvinnu hvað það getur
kostað mikil sálarátök og er þó bara leikrit. En þetta leikrit rífur gamla
sorg úr fylgsni; sorg sem við eigum öll einhversstaðar í djúpinu og sum
okkar margar. Annað dæmi um alvarlega fjöldasálarkreppu af völdum
leikrits, sem varð að veruleika í hugum fólks, er útvarpsleikritið
„Innrásin frá Mars“ sem var flutt í útvarpi í New York 1938 undir
stjórn Orson Welles. Ibúar borgarinnar flykktust út á göturnar í
dauðans angist. Mörgum er í fersku minni kvöldvaka í selsferð Mennta-
skólans í Reykjavík, þar sem þulir ríkisútvarpsins léku fréttir um
kjarnorkuárás á Keflavík og unglingar hlupu grátandi útí myrkrið í
áttina heim.
Við sjáum óttann að verki alstaðar í náttúrunni: Dýrin verða að vera
hrædd um líf sitt til þess að geta lifað, óttast ekki einungis önnur dýr
heldur einnig náttúruöflin! „Og afleiðing alls þessa er maðurinn
einsog við þekkjum hann: Háspennt og kvíðin skepna í sjúklegri
samkeppni við náungann. Dýr sem sér stöðugt nýjar og nýjar hættur
og þar með ástæður fyrir kvíða sínum. Jafnvel þegar ekkert er að óttast
býr hann sér til orsakir" einsog Ernest Becker kemst að orði, þar sem
hann ritar um afneitun dauðans.
En auðvitað er óttinn við dauðann einstaklingsbundinn, einsog allir
aðrir þættir lífsins. Menn þurfa einfaldlega mismunandi mikið til þess
að verða hræddir. Það læðist að manni sá grunur að tígrisinn sé ekki
eins hræðslugjarn og dádýrið!
Og hvað sem erfðaplágunni, óttanum við dauðann, líður, þá er það
ljóst að sá einstaklingur sem í æsku býr við öryggi og traust verður
betur búinn undir það verkefni að lifa með óttanum og dauðanum. Og