Skírnir - 01.09.1990, Page 79
SKÍRNIR
,ÍSLANDS ER ÞJÓÐ, ÖLL SÖKKT í BLÓÐ'
331
andhverfur marklausar. Til að slíkt væri unnt urðu þeir að sprengja af
sér menningarleg táknkerfi, sem gera heiminn að safni nafna og hug-
taka. Þau viðhalda blekkingu um formrænan stöðugleika í heimi er
auðkennist af stjórnlausu sístreymi og ofsafengnum hvörfum. Efnið,
ritaði Sade, er aldrei með öllu hreyfingarlaust; það eyðist aldrei né
heldur lifir það í sömu mynd til lengdar. Gildir það jafnt um holdlegan
efnivið mannsins sem önnur efnisleg fyrirbæri.1
Óreiðuþráin beinist öðru fremur gegn lífi og skynheild líkamans, því
að í formi hans felst aðgreining og takmörkun; markmiðinu verður ekki
náð nema manninum, eins og hann er skilgreindur, sé útrýmt. Sögu-
hetjur Sades þrá að verða eitt með öllu, án þess þó að glata sjálfum sér
til fulls. Takmark þeirra er samruni við heiminn, glundroði, þar sem
lífrænt og ólífrænt efni bráðna saman í síkvikri eining. Haldið er inn í
heim merkingarleysu og ofbeldis sem síðan eins og flæðir inn í form-
ræna veröld okkar og skapar öngþveiti. Verknaðurinn sem slíkur,
„transgressjónin", felur í sér eigið markmið; hann er sjálfseyðing, van-
helgun, hryðjuverk sjálfs sín vegna.
Margir nútímatextar lýsa þessari óreiðuhneigð; reynt er að eyða
landamerkjum mennskunnar - kyrrstæðum formum sjálfs og umheims;
orka sem bæld er eða göfguð frá degi til dags er leyst úr læðingi. I
þessum textum eru dregnar upp menningarlegar mótmyndir, þar sem
öll aðgreining er úr sögu - manndýr, lífdauði, karlkona - og þráin er
alvöld líkt og við fórnarstalla til forna. Lýst er sifjaspelli sem leysir upp
form fjölskyldunnar, sódómsku sem snýrvið „réttu“ kynferði; morð-
um, pyndingum, saurdýrkun og líkþrá, samförum við dauða, mannáti;
líkaminn er leystur upp í smáparta og efnisleiki hans afhjúpaður:
merkingarleysið, breytileikinn, jafnframt því sem tilfinninganæmi fólks
er ögrað á allan mögulegan hátt.
Heimur óreiðunnar tekur yfirleitt á sig mynd hins djöfullega innan
kristins samfélags. Þannig skýrðu menn tilveru hans áður fyrr; þeir
afneituðu þrá sinni sem af þeim sökum varð að skelfilegu og djöfullegu
fyrirbæri. Það er ósköp eðlilegt því að óreiðan er andstæð meginhugsun
kristindómsins, túlkun hans á eðli tilverunnar, lögmálinu; hún grefur
undan menningu sem reist er á aðgreiningu, tvíhyggju, formbundinni
1 Marquis de Sade: The 120 days of Sodom and Other Writings, New York
1966.