Skírnir - 01.09.1990, Page 88
340
MATTHÍAS VIÐAR SÆMUNDSSON
SKÍRNIR
óstýrilát hvöt vaknar til lífs - að stíga skrefið til fulls, fara yfir þrösk-
uldinn, sameinast óreiðunni, þínum eigin veruleika.
Þú skalt ekki morð fremja. Þú skalt ekki drýgja hór. Þetta eru dag-
skipanir sem enn þann dag í dag eru í fullu gildi, a.m.k. hin fyrri. Hún
tengist afstöðu mannsins til dauðans og er reist á bannhelgi sem virðist
hafa einkennt mannlegt samfélag allt aftur til Neanderthalsmannsins.
Engu að síður býr undarlegur tvískinnungur í afstöðu manna til
morðsins. Þannig virðist alla tíð hafa verið leyfilegt að brjóta bannið við
ákveðnar kringumstæður, einkum ef ókunnugir eiga í hlut, s.s. í stríði
við framandi fólk eða í blóðhefndarsökum. Reynslan sýnir að það sem
leyfist í einu tilviki er bannað í öðru, þótt um samskonar helgibrot eða
saurgun sé að ræða. Þannig eru mannsmorð oft á tíðum lofsungin í einu
orði en fordæmd í öðru, eins og ekkert sé eðlilegra. Það stafar e.t.v. af
því að orka bannsins er að miklu leyti tilfinningalegs eðlis. Það er ekki
aðeins skynsamleg íhugun sem heldur mönnum í skefjum. Georges
Bataille dregur þetta skýrt fram í bók sinni Erótík, 1962. Að hans dómi
felur helgibrotið sem slíkt ekki aðeins í sér afneitun forboðsins heldur
fullkomnun þess. Þetta er næsta erfið hugsun, en verður studd dæmum
hér á eftir.
í heimildum um Spánverjavígin 1615 og Tyrkjaránið 1627 er morð-
inu og sundrun líkamans lýst með ólíkum hætti. Annars vegar ríkir
neikvæð tilfinning, hrollkennd skelfing; eitthvað ólýsanlegt hafði gerst.
Hins vegar ber meira á jákvæðri afstöðu; hrottaleg og ástæðulaus
mannsmorð eru réttlætt og talin mönnum til gildis. Form ofbeldisins
eru einnig með ólíku móti. I Tyrkjaráninu er ofbeldið líkast hamslausri
aðsókn sem ekki verður varist, ráðist er á líkama samfélagsins sjálfs og
honum sundrað. I Spánverjavígunum er valdbeitingin hins vegar
skipulögð af samfélaginu gegn utanaðkomandi aðsókn. Það skýrir þó
ekki til fulls tortímingaræðið sem braust út á Vestfjörðum 1615, þegar
á fjórða tug skipbrotsmanna var slátrað. Það virðast liggja til þess dýpri
ástæður, eins og síðar getur. Og þrátt fyrir almenna ánægju er ljóst að
ákveðinnar sektarkenndar hefur gætt; það má m.a. ráða af eyðum í
samtímalýsingum og ofsóknum gegn Jóni lærða. Þó að saurgun sé leyfð
fylgir henni ávallt bölvun. Blóðugustu morðingjar komast ekki undan
afli bannhelginnar; kannski hlátur þeirra sé til marks um það.