Skírnir - 01.09.1990, Page 97
SKÍRNIR
.ÍSLANDS ER ÞJÓÐ, ÖLL SÖKKT í BLÓÐ'
349
ræðum manna; fólk varð að fella langanir sínar og þekkingarvilja að
sannleika þess, eða þegja ella. Höfundur Sannrar frásögu braut lögmál
þagnarhljóðsins þótt það gæti kostað hann líftóruna. Hann lagaði ekki
rödd sína að raust valdsins heldur lét hana gjalla í eyrum þess. Það var
glæpur hans.
Tyrkjaránið 1627
Menningarhvörf sautjándu aldar birtust m.a. í goðsögulegri nýsköpun,
eins og áður getur. Raunverulegir atburðir urðu tilefni goðsagnar sem
renndi stoðum undir djöflatrú og vítishræðslu meðal almennings, og
áttu ef til vill meiri þátt í kristnun Islendinga en menn hafa almennt gert
sér grein fyrir. Kirkjunni tókst að tengja boðskap sinn veruleika sem
brann á líkama hvers ög eins; veruleika sem gerði helvíti að raun-
verulegri ógn. Með Tyrkjaráninu 1627 fékk hið illa á sig áþreifanlegri
mynd í vitund alþýðu en áður. Hinir framandlegu ræningjar urðu í
þjóðsögunni að manndjöflum: heiðinni þjóð, óþjóð, manndjöflaþjóð.
Þeir urðu að sendiboðum Satans, skuggaskrímslum er stefndu hinni
mennsku borg í hættu væri ekki við þeim brugðist á viðeigandi hátt -
með eflingu kirkju og kristni.1
Óttinn við Tyrki var almennur í Norðurálfu frá fimmtándu öld og
fram á þá nítjándu. Þeim var bölvað í prédikunarstólum og særingar
þuldar gegn þeim löngu eftir að þeir höfðu hætt víkingaferðum. I
bænabókum kirkjunnar höfðu þeir sömu stöðu og náttúruhamfarir,
stórsóttir og reiðarþrumur. Þeir komu úr saurugum heimi að mati
manna, heimi rándýrsins, djöfuls þý með ráni og morði. í „Bæn á móti
Tyrkjanum", sem prentuð var í Avenarii bœnum er Oddur biskup
Einarsson þýddi á íslenska tungu, segir: „Hann [Tyrkinn] hefur gefið
líkami þinna þénara villudýrum í landinu. Hann hefur úthellt blóði
þeirra kristnu svo sem vatni og þar var enginn sem þá greftraði."2 Bæn
þessi var lesin hér á landi fram til 1860-70 að sögn Jóns Þorkelssonar.
Menn kyrjuðu og verndarsálma gegn Tyrkjanum fram á nítjándu öld;
heiftin og skelfingin lifðu með þjóðinni furðu lengi.
1 Sjá grein mína „Heil öld á heljarþröm", Lesbók Morgunblaðsins 18. marz
og 1. apríl 1989.
2 Tyrkjaránið á íslandi 1627, bls. XII.