Skírnir - 01.09.1990, Side 103
SKÍRNIR
.ÍSLANDS ER ÞJÓÐ, ÖLL SÖKKT í BLÓÐ
355
sökkt í blóð.“ Jafnframt er táknkerfi heimsins úr lagi fært, hin náttúr-
lega og guðlega skipan. Kennimörk manns og dýrs verða að engu í
löglausri óreiðu; andstæð svið tilverunnar falla saman, vatn hverfist í
blóð. í þessari saurgun felst óhugnaður lýsinganna öðru fremur. Ýkjum
og viðaukum er ætlað að draga hann fram og skerpa, auk þess sem
myndmálið er sótt til dýraríkisins. Tyrkir eru vart nefndir án þess að
þeim sé líkt við blóðhunda og villidýr, mýs og gelti; þeir eru ófreskjur
í augum hinna kristnu, mennskir og ómennskir í senn, manndjöflar,
mannskrímsli, komnir úr heimi hins öfuga. Djöfulskapur þeirra er enn
djöfullegri fyrir þá sök að þeir blanda grimmd sína spotti, svívirðing
sína hlátri: „En þá þessar skepnur veinuðu og kölluðu á drottin sér til
hjálpar, grenjuðu illmennin upp með hrópi og hlátri."1 Þetta er satansk-
ur hlátur, öfugur og skældur, siðlaus og lostugur. Með komu ræningj-
anna ryðst skepnan inn í borg mannsins; fullkomin afhelgun á sér stað
og harður dauði.
í orðræðu sautjándu og átjándu aldar var kristnum heimi skipað í
fullkomna andstöðu við heim heiðninnar, náttúrlegri skipan við
ónáttúrlegt öngþveiti. Veröldinni var skipt í tvennt, borg og eyðimörk.
Allt flökt innan þessa kerfis var fordæmt og mynduðust um það fjöl-
mörg bönn, því að kyrrstaða var forsenda samræmis, lífs og náðar. Að
öðrum kosti mátti búast við því að djöfulskapur og fordæming, hroll-
vekja vítis - eyðimörkin, legði borgina undir sig. Þessi landfræðilega
skipting samsvarar í grófum dráttum heimum Batailles: hin kristna
veröld er hliðstæð heimi vinnu og skynsemi, en heiðnin heimi ofbeldis
og óheftrar nautnar. Þessum forboðna heimi tilheyra Gyðingar, villu-
trúarmenn og barbarar; talað var um grimmdarsverð Tyrkjans, ok
Anta-Krists eða páfans, svik kalvínista o.s.frv.; heiðnar þjóðir og
trúvilltar umkringdu hina kristnu borg. Bréf íslenskra fanga frá Algeirs-
borg varpa skæru ljósi á þennan hugsunarhátt. Þeir upplifa „sturlan
heimsins" með strangari hætti í herleiðingu sinni en aðrir - týndir,
ofurseldir miskunnarlausu harðræði, neyðarþjáningu, þungri álaga-
byrði, vonlitlir um hjálp að heiman. Hérlendis bjuggu þeir í samfélagi
sem þrátt fyrir allt var að verða heildstætt og segulbundið. Það var að
vísu stéttgreint og fátækt, en hver og einn var hluti af samstæðri
fjölskyldu; konungurinn var mönnum sem fósturfaðir, handhafi
1 Sama rit, bls. 255.