Skírnir - 01.09.1990, Síða 107
SKÍRNIR
.ÍSLANDS ER ÞJÓÐ, ÖLL SÖKKT f BLÓÐ'
359
Þetta kerfi lá tvenns konar frásagnarsniðum til grundvallar. Annað
þeirra, innrásarsnidið, gat tekið á sig ýmsar myndir: dauðir ráðast inn
í heim lifenda, náttúruöfl eða sjúkdómar losna úr læðingi, ókunnir
ræningjar nema land - torkennileg öfl nema lögmál hvunndagslífsins úr
gildi. Við þessar aðstæður er mönnum nauðugur einn kostur að leita til
Guðs sem alls staðar er nálægur, treysta á hjálpræði hans; þannig er það
vilji Drottins sem öllu stýrir samkvæmt „Spönsku vísum" - hann refsar
landsmönnum fyrir trúleysi þeirra, brýtur skip Spánverja og leggur á
þá harðan dauða, „því eingum dugir þar afl né hlíf,/sem yfir vill drott-
inn vinna“ (37. er.).
Innrásarsniðið fléttast iðulega saman við píslarsnið í textum
sautjándu aldar, t.d. í reisubók séra Ólafs Egilssonar. Það er engin
tilviljun að séra Ólafur vitnar í Jobsbók við upphaf sögu sinnar; hann
er íslenskur Job sem glatar bæði eignum og fjölskyldu í rás atburða, þar
sem trú hans er reynd til þrautar. Saga hans lýsir ánauð, missi og
hrakningum, ferð inn í ókennilegan heim, en um leið er hún andleg
viðureign, leiðangur hið innra; höfundur reynir að samræma trú sína og
reynslu, raða einstökum atburðum í samhengi, gæða þá tilgangi, breyta
þeim í samfelldan, merkingarríkan vef. Það gerir hann með því að laga
reynslu sína að kristilegu líkani; hún staðfestir eilíft gildi píslarsögunnar
- að líf hvers manns, hverrar þjóðar, er krossfesting.
Sniðin tvö gæddu ránið í Eyjum og stríðið í Djúpi merkingu í huga
fólks. Hinum útlendu mönnum voru gefnir yfirnáttúrlegir eiginleikar;
hvorir tveggju voru vændir um galdur, svo og óheilbrigðan, taumlausan
losta - þetta voru blóðsugur í mannsmynd, þegar allt kom til alls;
hversdagslegri tilveru var snúið í ævintýralega hrollvekju. Að auki
spegluðu sniðin tvö félagslegan veruleika með ýmsum hætti. Á þessum
tíma var að verða til nýtt ríkisvald sem byggðist ekki aðeins á
útvíkkaðri sjálfstjórn einstaklingsins heldur kúgun hins mannlega,
afnámi þess innan nýs táknkerfis. Stjórnarstefnan var að miklu leyti
reist á vænibrjálæði (,,paranoju“): baráttu gegn raunverulegum og
ímynduðum óvinum, innan lands og utan. Það varð því að telja fólki
trú um að það væri umsetið og þyrfti á skjóli að halda. Um þessar
mundir hófst kerfisbundin innræting, umsköpun hugarfars. Gerð var
innrás í einkalífið og það bundið ytri ákvæðum í ríkari mæli en áður.
Trúarathafnir, sem farið höfðu fram í sóknarkirkjum eingöngu, færðust
nú inn á heimilin undir umsjón sóknarpresta; baðstofan varð að opin-