Skírnir - 01.09.1990, Page 114
366
ÞORSTEINN GYLFASON
SKÍRNIR
og menn trúa í dag, en á sínum tíma samt. Og hér þótti sumum lær-
dómsmönnum miðalda sá kostur koma til álita að hvorttveggja væri
satt: að heimurinn sé óendanlegur frá heimspekilegu eða vísindalegu
sjónarmiði en endanlegur frá trúarlegu sjónarmiði. En heilagur Tómas
sýndi fram á að tvöfeldnin bryti í bága við hversdagslegustu atriði um
sannleikann samkvæmt heilbrigðri skynsemi. Eg er hræddur um að
sama máli gegni um tvöfeldni tuttugustu aldar. Hyggjum aðeins betur
að henni.
Vilhjálmur Árnason hefur það úr ritgerð Sigurbjörns „Biblían,
kirkjan og vísindin“ að upphaf Biflíunnar - sköpunarsagan - sé „jafn-
óskylt náttúrufræði og sonnetta eftir Jónas eða fúga eftir Bach“ og þetta
til viðbótar:
Mannsandinn tjáir sig ekki á einn veg alls staðar. Tjáningu þeirrar skynjunar
og túlkun þeirrar vitundar, sem verið er að koma á framfæri í Biblíunni, er
fremur að líkja við það, þegar skáldið er að tala sitt óraunhæfa og djúpvísa
mál, en þegar vísindamaður skrásetur raunreyndir sínar.1
Hér stendur hvort andspænis öðru: hin veraldlegu sannindi eða „raun-
reyndir" jarðsögunnar og heimsfræðinnar annars vegar og boðskapur
ritningarinnar hins vegar sem nú er líkt við djúpvísan skáldskap. Og
það á að vera rammur misskilningur að villast á þessu tvennu eða
blanda því einhvern veginn saman. „Sköpunarsagan verður harla
bágborin ef hún er lesin eins og fræðilegur texti,“ segir Vilhjálmur. Það
er út af fyrir sig alveg rétt hjá Vilhjálmi að það er hjákátlegt að lesa
sköpunarsöguna eins og fræðilegan texta. Meinið er bara að það hefur
enginn maður gert, hvorki fyrr né síðar. Sköpunarsagan var talin vera
sönn saga sem er allt annað mál. Það er nefnilega margfalt meira satt í
veröldinni en fræðilegir textar, auk þess sem við megum helzt aldrei
gleyma því að í fræðilegum textum af öllu tæi er drjúgur slatti af
ósannindum. Það er eins og Vilhjálmur haldi að ágreiningur vísinda-
manna sögunnar, svo sem jarðfræðinga á öndverðri öldinni sem leið,
við sanntrúað kristið fólk hafi verið einber misskilningur, hjákátlegur
misskilningur: allt þetta lið hafi ekki kunnað að gera greinarmun á
1 Vilhjálmur Árnason: „Réttlæti og trúarsannindi eða Vegurinn, sann-
leikurinn og lífið“ í Tímariti Máls og menningar XLVII, 3 (október 1986),
379. Ritgerð Sigurbjörns er prentuð í bók hans Coram Deo, Örn og
Örlygur, Reykjavík 1981.