Skírnir - 01.09.1990, Page 115
SKÍRNIR
LJÓSIÐ SEM HVARF
367
fræðilegum og trúarlegum textum. En ég er hræddur um að misskiln-
ingurinn sé allur hjá Vilhjálmi sjálfum.
Hér er svo Vilhjálmur að lýsa viðhorfum alls þorra nútímaguð-
fræðinga:
Þeir leggja áherslu á að það er ekki sögulegt sanngildi einstakra atburða sem
er mikilvægast í guðspjöllunum. Þau sannindi sem skipta trúmanninn mestu
máli eru ekki sagnfræðileg í venjulegum skilningi þess orðs. Trúarsannindi
eru, þegar allt kemur til alls, sannindi um okkur sjálf, möguleika okkar og
takmarkanir. Það er boðskapurinn um Krist, þau fyrirheit og fordæmi sem
hann gaf með lífi sínu, sem eru þýðingarmest fyrir trúmanninn. Hann trúir
ekki þessum sannindum eins og hann trúir því að Gamli sáttmáli hafi verið
gerður árið 1262; hann treystir þeim og bindur við þau allt sitt trúss. Því Guð
er ekki sannur eins og setning, heldur fremur eins og vinur sem hægt er að
reiða sig á, en jafnframt miklu meira en það: „Kristur rís upp í boðskapnum
og leysir líf mannsins þannig frá hinu ósanna til hins sanna, frá því að vera
ekki til þess að vera."1
Þetta er ekki mjög ljóst mál hjá Vilhjálmi, og verður óskiljanlegt í til-
vitnuninni í lokin. En það er gagnsýrt af tvöfeldni. Það eru til venjuleg
sagnfræðileg sannindi hjá Vilhjálmi og svo trúarsannindi sem eru af allt
öðru tæi. Vilhjálmi farnast ekki ýkjavel þegar hann fer að útlista þessi
trúarsannindi nánar. Hann segir ekki að þau tilheyri einhliða trúarlegu
sviði eins og Sigurbjörn kynni að vilja segja, heldur að þau séu sannindi
um okkur sjálf. Hér vill maður staldra við. Eg hefði haldið að trúarleg
sannindi væru setningar eins og „Guð skapaði heiminn“ og „Kristur
reis frá dauðum“. Hvernig í ósköpunum er hægt að lesa þessar setn-
ingar sem sannindi um okkur sjálf? Þetta eru bersýnilega setningar um
Guð og Krist og enga aðra. Við getum í mesta lagi dregið af þeim
einhverja lærdóma um okkur sjálf með hjálp frekari sanninda. Við þetta
bætist að með því að neita að telja til dæmis „Kristur reis frá dauðum“
til venjulegra sögulegra sanninda rísa þessir guðfræðingar sem Vil-
hjálmur er að segja frá gegn einum kjarna kristinnar trúar frá öndverðu.
Áður en ég sný mér að þessum kjarna trúarinnar er rétt að veita því
athygli að Vilhjálmur virðist leggja trúarsannindi að jöfnu við það að
Guð sé sannur eins og vinur er sannur en ekki eins og setning er sönn.
1 Vilhjálmur Árnason: „Réttlæti og trúarsannindi," 379. Tilvitnunin í lokin
er í ritgerð Gunnars Kristjánssonar: „Ritskýring og túlkun Biblíunnar" í
Máli og túlkun, ritstjóri Páll Skúlason, Hið íslenzka bókmenntafélag,
Reykjavík 1981,166.
24 — Skímir