Skírnir - 01.09.1990, Page 120
372
ÞORSTEINN GYLFASON
SKÍRNIR
missýnir eða fyrirbæri, sem verða við loftsteinahröp, ummyndun Jesú á
fjallinu túlkaði hann sem sjónhverfingu, sem verður í mistri við sérstök
birtuskilyrði; þá taldi hann, að Jesús hefði notað sérstök lyf við kraftaverk sín
og upprisa dauðra hefði í rauninni aðeins verið björgun kviksettra...1
Þótt ágreiningur sé um einstök atriði þá er meginhugsunin hin sama og
hjá Paulusi í nýjatestamentisfræðum skynseminga til þessa dags, svo
sem ráða má til dæmis af bókinni Jesus eftir Humphrey Carpenter sem
reist er á nýjustu rannsóknum hinna fremstu fræðimanna að því er sagt
er.2 Þar er ekki lagður trúnaður á eitt einasta kraftaverk sem guðspjöllin
eru full af sem kunnugt er. Það væri ekki skynsamlegt. Kraftaverka-
sagnirnar eru ýmist taldar gyðinglegar arfsagnir, táknrænar dæmisögur
eða afsakanlegar missagnir þess fáfróða og hjátrúarfulia fólks sem
myndaði frumkirkjuna. Séra Gunnar Kristjánsson hefur það eftir
nýjatestamentisfræðingum nútímans almennt að guðspjöllin séu rituð
í „kerygmatiskum tilgangi" eins og hann kallar það þótt það merki ekki
annað en að þau séu skrifuð í boðskaparskyni:
markmiðið var að bera hinum nýja raunveruleika í Jesú Kristi vitni með
sögum þessum. Þetta á ekki sízt við um fæðingar-, kraftaverka- og páska-
frásagnirnar og ýmsar aðrar að auki, þar sem lítið segir af því, sem átti sér
stað, heldur liggur áherzlan öll á því, hvaða merkingu þessir atburðir höfðu
fyrir þá, sem áttu þessa reynslu, þ.e. frumkirkjuna.3
Einn frægasti guðfræðingur mótmælenda á 20stu öld er Rudolf Bult-
mann (1884-1976). Samkvæmt guðfræði hans er það höfuðeinkenni á
kristinni trú að hún er teiknatrú. Hún er trú á teikn eins og meyfæðingu
og upprisu. Nú fer Bultmann eins og hverjum öðrum skynsemingi að
því leyti að þessum teiknum treystir hann sér ekki til að kyngja eins og
þau standa. Hann vill því túlka þau þannig að þau útrýmist og sjá í þeim
aðra merkingu en hina bókstaflegu sem kristnir menn hafa lagt í þau í
næstum tvö þúsund ár. Þetta heitir hjá honum afteiknun (Entmytho-
logisierung) kristindómsins.
Það er fróðlegt að sjá Bultmann að verki í einstökum atriðum. Oll
saga Krists eins og henni er lýst í Nýja testamentinu, segir hann, er
ekkert nema goðsögn, þó ekki sé nema vegna þess að Kristur er
1 Gunnar Kristjánsson: „Ritskýring og túlkun Biblíunnar," 137.
2 Humphrey Carpenter: Jesus, Oxford University Press, Oxford 1980.
3 Gunnar Kristjánsson: „Ritskýring og túlkun Biblíunnar“, 172.