Skírnir - 01.09.1990, Síða 128
380
ÞORSTEINN GYLFASON
SKÍRNIR
Það er þegar fram komið að satt og ósatt eru eins hversdagsleg orð
og verið getur. Við innbyrðum hugmyndina að baki þeim í fyrstu
bernsku alveg vandræðalaust, til dæmis með því að læra að fara með orð
eins og er og ekki og já og nei. Og börn þurfa ekki að vera altalandi til
að þau fái brennandi áhuga á því hvað gerist í alvörunni og hvað í plati.
Þau segja sjálf satt og ósatt alla daga, alveg eins og við hin. „Það var ekki
ég sem braut glösin í morgun," segir sex ára strákur. „Karlhelvítið hefur
haft af mér stórfé,“ segir faðir hans um verkstjóra í frystihúsinu þar sem
hann vinnur. „Ég hef ekki bragðað vín í tvo daga,“ segir húsmóðirin á
þessu heimili; hún vinnur ekki úti. Við sjáum það í hendi okkar að
þessar staðhæfingar geta hvort heldur verið sannar eða ósannar. Við
vitum hvað til þess þarf að komast að raun um sanngildi þeirra. Við
vitum líka hvað til þess þarf að komast að raun um sanngildi fréttar í
blaði eða slúðursögu á kaffistofu. Það er stundum erfitt. Það er stund-
um erfitt líka að segja sannleikann, og létt að ljúga og kemur sér vel.
Þegar talað er um satt og ósatt í vísindum - og haft fyrir satt að jörð
fari um sjálfa sig og um sólina líka, eða að erfðastofnarnir séu kjarna-
sýrur - þá eru þessi orð skilin hinum yfirlætislausasta og hversdags-
legasta skilningi. Það er enginn eðlismunur á sannindum sögðum við,
og þess vegna vil ég segja að öll sannindi séu jafn hversdagsleg. Það er
enginn munur á sannindum um svarthol í algeimnum, sjúkdóma í laxa-
seiðum og íslenzka fánann nema sá að þau fjalla um ólík efni.
En nú heyri ég spurt með þunga: er þá enginn munur á hvers-
dagslegum og vísindalegum sannindum? Eru ekki vísindaleg sannindi
sannindi um vísindaleg efni? Svarið verður að vera nei, þó ekki væri
nema vegna þess að hvert einasta efni sem um er hugsað og sagt er frá
er hugsanlegt vísindalegt rannsóknarefni. Sigurbjörn Einarsson kallar
rannsóknir guðfræðinga á heilagri ritningu vísindi, og hann má það
fyrir mér. Hann hefur að vísu fyrirvara á og segir að „kristin trúar-
hugsun [hafi] alla tíð gert sér grein fyrir því, að Guð er ekki viðfangs-
efni neinna vísinda né fræðilegra kannana".1 En þetta er ekki rétt hjá
honum: sú er ein af kenningum kaþólsku kirkjunnar, sem er höfuð-
kirkja kristinna manna eins og ég hef áður sagt, að tilvera guðs sé
rannsóknarefni veraldlegra vísinda, nefnilega frumspeki. Og Stephen
W. Hawking, sem er kunnastur heimsfræðinga á okkar dögum, er að
1 Sigurbjörn Einarsson: „Kristin trú á tækniöld", 350.