Skírnir - 01.09.1990, Síða 135
SKÍRNIR
LJÓSIÐ SEM HVARF
387
tilveru Guðs og aðskilnað sálar og líkama af alvöru og stundum af
rammri ástríðu.1 Eftirmenn heilags Tómasar á vorum dögum eru engir
meðal guðfræðinga. Þeir eru meðal heimspekinga eins og til að mynda
Johns Rawls sem setur saman kenningu um réttlæti eða þeirra þriggja
kaþólsku heimspekinga sem eru nú í fremstu röð í sinni grein: Elísa-
betar Anscombe, Michaels Dummett og Péturs Geach.2 Þeir eru líka
meðal sameindalíffræðinga sem eru að bregða birtu á hin fjölbreyti-
legustu markmið alls sem lifir. Og sameindalíffræðin er ekki djöfulleg
að neinu leyti, þó svo það megi hugsanlega nota hana til að eyða með
sárustu kvöl öllu sem lifir. Heilagur Tómas mundi fleygja sér niður og
kyssa jörðina þúsund sinnum af lotningu fyrir skapara sínum ef hann
fengi að lesa þó ekki nema fáeinar bækur um þessi fræði. Og hann hefði
reynt að brjóta þau til mergjar og lagt út af þeim og reynt eftir fremsta
megni að hugleiða hvort þau samrýmdust hans kristnu trú, og ef svo
væri þá hvernig.
Nýguðfræðin verður að víkja í eitt skipti fyrir öll. Hún er sama
viðurstyggðin frá kristilegu sem ókristilegu sjónarmiði. Og eina tækið
sem við höfum til þess að útrýma henni er heimspeki. Séra Árni
Þórarinsson sagði það um skynseminginn Ásmund Guðmundsson
biskup að hann gæti „afkristnað heil sólkerfi og væri ekki lengi að því“.3
Eg veit ekki nema að það sé búið að því. Ég var nýlega staddur í er-
lendum háskóla til að flytja þar fyrirlestra. Meðal annars sótti ég þar
leshring heimspekikennaranna þar sem þeir voru að rökræða, kafla
fyrir kafla, nýja bók um kristna trú eftir kaþólskan heimspeking,4
öldungis lausa við markleysur eins og tvöfeldnina sem ég hef haft í
1 Sjá til dæmis um guðstrúarrökræðu heimspekinga frá síðustu árum Richard
Swinburne: The Existence of God, Clarendon Press, Oxford 1979, og J.L.
Mackie: The Miracle of Theism: Arguments for and against the Existence
ofGod, Clarendon Press, Oxford 1982.
2 Michael Dummett stofnaði í október 1987 til rökræðu um viðfangsefni mín
í þessari ritgerð í tímaritinu New Blackfriars. Sjá Michael Dummett: „A
Remarkable Consensus" í New Blackfriars 68, 809 (október 1987),
424-431, og „What Chance for Ecumenism?" í New Blackfriars 69, 822
(desember 1988), 530-544. Síðari greininni fylgir skrá um öll framlög til
ritdeilunnar sem spratt af fyrstu grein Dummetts.
3 Þórbergur Þórðarson: Ævisaga Arnaprófasts Þórarinssonar I, 475.
4 William Charlton, Philosophy and Christian Belief, Sheed & Ward,
London 1988.