Skírnir - 01.09.1990, Page 140
392
VILBORG DAGBJARTSDÓTTIR
SKÍRNIR
en ég sat við eldhúsborðið og skrifaði. Við gerðum stutt hlé meðan við
borðuðum súpuna og vöskuðum upp, svo fórum við með kaffi inn í
stofuna hennar og hún settist í sófann undir glugganum og hélt áfram
að tala og ég að skrifa. Þegar við urðum svangar fengum við okkur
meiri súpu. Um miðnætti hljóp ég til að ná í síðasta strætisvagninn.
Nú þori ég ekki að fara orðrétt með það sem ég skrifaði eftir henni,
hún yrði kannske reið við mig, það getur verið að hún hafi sagt mér
þetta í trúnaði. Þó bað hún mig ekki fyrir neitt, en hún sagði mér hluti
sem enginn annar vissi, og hún hafði jafnvel aldrei orðað við systur sína
né gefið henni til kynna að hún vissi þá. Hún var einmana, þetta var
áður en Guðbergur Bergsson kom í húsið til hennar, hún var sorgbitin
og talaði úr sálardjúpunum, hispurslaus og hreinskilin eins og henni var
lagið.
Hún hringdi og skammaði mig fyrir minningargreinina. Ekki hefði
verið fallegt að kalla Borgarnes versta íhaldsbæli og ógurlega lágkúru-
legan stað, það hefði sært fólkið hennar sem vissi hvaðan þetta var
komið.
Margt af því sem ég skrifa hér byggi ég á þessu sama viðtali en reyni
að segja ekkert sem gæti sært fólkið hennar Málfríðar. Ég sé hana fyrir
mér, þar sem hún stendur við eldavélina og hrærir í pottinum, örlítið
rjóð af gufunni, við og við lítur hún til mín á ská yfir öxlina og talar í
lágum hljóðum og dregur svolítið seiminn.
Um þetta leyti fór Jóhann Björnsson, móðurbróðir hennar, að búa
í Bakkakoti, seinna var það kallað Hvítárbakki, hann tók Sigríði í fóstur
sex ára gamla árið 1899. Þangað kom skarlatssótt. Vinnumaður bar
þangað sóttina. Hann átti að sótthreinsa sparifötin sín en gerði það ekki
af því að hann var svo hræddur um að skemma þau. Sigríður fékk
skarlatssóttina og varð ákaflega veik. Henni fannst hún deyja. Hún
hvarf úr líkamanum og sá sjálfa sig liggja í rúminu. Hún sveif, aðeins
þráður var milli hennar og líksins í rúminu. Henni fannst ákaflega gott
að deyja, en svo var kippt í og hún hvarf aftur í líkamann. Hún mundi
þetta atvik alla ævi. Hún sagðist hafa haft frábært minni fram til þess
tíma er hún veiktist, það beið mikinn hnekki og varð aldrei jafngott.
Árið 1902 eða 3 brá Jóhann búi og flutti út á Akranes. Hann giftist
þar en tók Sigríði ekki með sér. Skildi hana eftir. Þá fór hún að Svarfhóli
til afa síns og ömmu. Henni fannst anda köldu til sín frá afa, Birni
Ásmundssyni, en ekki ömmu, hún var svo væn.