Skírnir - 01.09.1990, Page 145
SKÍRNIR
MADEMOISELLE S.E.
397
Björnssonar læknis). Hann var skrifstofumaður. Faðir hans vildi ekki
kosta hann í skóla en hann varð hálfhugstola. Þá sá faðir hans að sér og
sendi hann á Flensborg en það var of seint. Hann náði sér ekki aftur.
Jón á Hóli var Sigríði alla tíð hugstæður. Hún dáði hann mjög. Þó
gat aldrei orðið samband þeirra á milli. Jón fór til Þýskalands og lærði
þar þrennt: að nota eiturefni, hómósexúalítet og að dást að Hitler.
Hann varð nasisti.
Hann hefði betur aldrei farið. Hann sem var hvers manns hugljúfi en
fór svona. Eyðilagði í sér magann. Kristinn var alltaf að krukka í hann.
Annar maður fór svona. Benedikt Sveinsson, bróðir Ásmundar
myndhöggvara. Um þann vin sinn orti Sigríður undir bergmálshætti:
Benedikt skín, skín
skær eins og vín, vín.
Aldregi dvín, dvín
dáunin mín, mín.
Bjartur sem ljós, ljós
lyktar sem rós, rós.
Lífsins við ós, ós
endar mitt hrós, hrós.
(Kveður í runni, bls 34)
Sigríður safnaði ljóðum sínum og vísum í bók sem kom út hjá prent-
smiðjunni Acta Alþingishátíðarárið. Bókin er 90 blaðsíður og heitir
Kveður í runni.
Þetta ár, 1930, komu út tvær ljóðabækur eftir konur. Hin bókin er
eftir Unu frá Vestmannaeyjum og heitir Vestmannaeyjaljóð. Um Unu
var sagt: Vonandi er henni eitthvað betur lagið en að yrkja. Samt er hún
eina konan sem finnur náð fyrir augum Jóns Helgasonar, skálds og
prófessors, í merku erindi sem hann flutti íslenskum stúdentum í Höfn
25. febrúar 1944 og birtist síðar í bókinni Ritgerðakorn og rœðustúfar.
Ritgerðarkornið eða ræðustúfinn kallar hann „Að yrkja á íslenzku" og
rekur þar ljóðhefðina aftur í gráa germönsku og fram á okkar tíma.
Greinin er prýdd ótal ljóðdæmum, aðeins eitt er eftir konu. Honum
farast svo orð:
Það sem helzt er eftir hjá okkur af elztu skáldskaparíþrótt forfeðra vorra er
stuðlasetningin, og í raun og veru furða hve lífseig hún hefur reynst. Manni
gæti komið til hugar að spyrja hvort dýpri rætur muni eiga í íslendingum,
skynbragð á stuðla eða tilfinning fyrir rími. Mér virðist helzt sem það muni