Skírnir - 01.09.1990, Page 146
398
VILBORG DAGBJARTSDÓTTIR
SKÍRNIR
skiptast eftir einstaklingum. Þannig sé ég af ljóðakveri Unu skáldkonu
Jónsdóttur í Vestmannaeyjum (sem mérþykir lærdómsríkt), að hún stuðlar
jafnan rétt en rímar miður:
Seggir sómaslyngir
sigla ránarhyl,
áttu allt í kringum
auðug fiskimið.1
Þótt það megi nánast teljast viðtekin venja að spyrða saman skáldkonur
og tala um þær í kippum, þó að þær eigi fátt annað sameiginlegt en það
að vera kvenkyns, ætla ég ekki að líkja þeim saman Unu og Sigríði.
Sigríður hefur bæði rím og stuðlasetningu á valdi sínu og hún birtir
einnig prósaljóð, frumort og þýdd, í þessari fyrstu ljóðabók sinni, enda
mun hún hafa haft áhrif á ung skáld þess tíma. Jón úr Vör og Steinn
Steinarr, sem urðu helstu frumkvöðlar frjálsara forms í íslenskri ljóða-
gerð, lærðu af Sigríði. Einkum kom Steinn mikið til hennar.
Það kennir margra grasa í bók Sigríðar enda ljóðunum safnað saman
á löngum tíma. Þar eru sléttubönd og dýrt kveðnar vísur frá unglings-
árunum, jólaþula, ljóð um átthagana og fjöllin hennar séð frá Reykja-
vík.
Blá rísa fjöll í fjarska.
- Fjörður er lygn og breiður.
Yfir víkina vestur
vitjar hugurinn tíðast.
Einn stendur jökull og ystur
útvörður fjallgarðar.
Röðull á kyrru kveldi
kyndir um fjallatinda.
(Kveður í runni, bls. 5)
Hún er lýriskt skáld sem yrkir um fegurð og blómaangan:
Þar verða ilmur af íslenskri björk,
ilmur af laufi í vorgrænni mörk,
ilmur af resedu, ilmur af rós,
ilmur af vatni, sem fellur í ós
af vatni er sefliljum snjóhvítum ruggar.
(Kveður í runni, bls. 43)
1 Jón Helgason: „Að yrkja á íslenzku", Ritgerðakorn og rœðustúfar, Félag
íslenzkra stúdenta í Kaupmannahöfn, Reykjavík 1959, bls. 28.