Skírnir - 01.09.1990, Page 156
408
GUÐBERGUR BERGSSON
SKÍRNIR
maður vissi aldrei með vissu við hvern var að etja í umgengni við hana.
Voru viðbrögðin hennar eigin viðbrögð, sprottin af eðli hennar, eða
aðeins afleiðingar af langvarandi sjúkdómi?
Umræður okkar fóru jafnan fram í eldhúsinu. Þar sátum við lon og
don á litlum stólkollum við borðið milli ísskápsins og fornfálegu
þvottavélarinnar og ræddum gjarna um það, að hún hefði alla tíð orðið
að þola margs konar misskilning og áreitni og notið lítils stuðnings frá
samtímamönnum sínum. Það stafaði kannski fremur af því að fáir
skildu eðli skáldskaparæðar hennar en af beinum illvilja í hennar garð:
efnið goppaðist upp úr sálarkirnunni, án þess að hún gæti leiðrétt það
síðar, farið yfir það eða fágað. Yfirleitt kom það samt fullslípað úr huga
hennar.
Skáldskapareðlið - eða fólk með þessa tegund af ímyndunarafli -
þarf oft á aðstoð annarra að halda til að „fullgera“ verk sín eða ganga
frá þeim, hjálp einhvers með skipulagðara ímyndunarafl, manns sem
kann að næla bunurnar eða skáldskaparflæðið saman í heild og
leiðrétta. Þessi eðlisgerð skálda er engu lakari en þeirra sem hafa tamið
sér skipuleg vinnubrögð eða fæðst með þá hæfileika að geta legið jafnt
yfir texta á blaði og tuldri í huga.
Ég tel að svonefnd skáldskapareinkenni komi oft fram hjá börnum
á þann veg, að barn með ríkt hugarflug er gjarna slæmt í réttritun og
skrifar ríkt efni á „röngu“ máli, en barn með fátæklegt eða lítið ímynd-
unarafl skrifar málfræðilega rétta stíla, skipulagða en oft heldur rýra að
innihaldi. Fákunnandi eða slæmum kennurum líst betur á þannig barn
en hitt, enda er hægt að taka gott próf í rétt rituðu og vel frágengnu
innihaldsleysi, því að réttritun er miðuð við eitthvað (reglur) sem er
fyrir hendi, en það er engin leið að gefa ímyndunarafli eða andlegri
auðgi manns örugga einkunn.
Eitthvað svipað kemur fram hjá rithöfundum, fremur hjá þeim sem
eru meiriháttar eða í ætt við snillinga en hinum; afburðamaður gerir oft
„hræðilegar skyssur sem enginn skilur hvernig geta hafa hent hann“,
en eftirhermurnar skrifa hnökralaust og fá góða dóma hjá gagnrýn-
endum.
Líklega hefur það fólk sem réð bókmenntum og smekk á tímum
Málfríðar fælt hana frá skáldskap, að svo miklu leyti sem það var unnt,
vegna þess álits að hún gæti eða kynni ekki að „halda þræðinum". Sjálf
var hún líka laus í rásinni eða hafði ekki lag á að kynda undir katli