Skírnir - 01.09.1990, Page 159
SKÍRNIR
,í ÞESSU HERBERGI HEFUR BÚIÐ DOKTOR'
411
burt með íslensku íhaldskerlingarnar!" hafa reynt að fullvissa mig um
það að sú niðurlægjandi upphefð að vera kerlingasjarmur sé engin
trygging fyrir „góðri sölu“ á bókum.
„Kerlingar hrósa upp í hástert og kjafta í síma, en þær kaupa ekki
bækur,“ segja þeir.
Aður en Málfríður tók mig í heilagramannatölu varð ég að þola and-
legar raunir og vaða berfættur eld vitsmunanna, en komst að lokum yfir
logandi viskuglóð. Björgunina á ég að þakka ljóði sem ég kem að bráð-
um. Hún lét mig þreyta gáfnapróf með þeim hætti að hún bankaði hjá
mér og spurði sakleysislega t.a.m.:
„Æ, þú manst víst ekki hvað Mont Blanc er hátt fjall?
Það mundi ég að sjálfsögðu ekki.
Þá sagði hún:
„Kannski gekkstu ekki langan menntaveg, þú ert auðheyrilega
enginn doktor."
Síðan kvaðst hún ekki muna betur, samkvæmt sínum bága lærdómi
í barnaskóla, en Mont Blanc ... Hún nefndi metrana en bætti því við að
best væri að við gáðum bæði í „Britaníku" bresku alfræðiorðabókina.
Þegar við gerðum það hafði hún munað hæð fjallsins upp á sentimetra.
Eftir hálfan mánuð var ég farinn að hafa svo þungar áhyggjur af
vanþekkingu minni að nærri lá að ég bæði um inngöngu í barnaskóla
á ný. Þá stóð ég kellu að verki:
Fyrst leit hún í „Britaníku“, síðan bankaði hún hjá mér og spurði í
sakleysi hins fróðleiksfúsa, lét mig standa dálitla stund á gati í dyrunum
en leiddi mig síðan eins og gömul kennslukona að sannleikanum í
bókinni, til að sannfæra mig um þekkingu sína og ágæti bóka.
Meðan Málfríður var ung gekk hún í Kennaraskólann en hafði
megnustu fyrirlitningu á honum, því hún vissi flest betur en kennar-
arnir þar, „eins og Þórbergur gerði“, enda hefur löngum þótt afskaplega
„ófínt“ meðal íslensks menntafólks að hafa „lært til kennara“; engu að
síður loðir púkalegasti þáttur þess starfs við það flest: að þykjast vita allt
„upp á hár“. Það kemur fram í þeirri áráttu að skella skyndiprófi á
Pétur og Pál hvenær sem næst til „vitleysings", láta hann standa á gati
og löðrast í svitabaði en fella hann síðan í fögunum með illgirnislegu
brosi sérgæðingsins.
Þörfin fyrir að vera sá besti í bekknum, sem sálkönnuðurinn Alfreð
Adler kallar „skóladrengjaáráttu“ og hefur þjáð gáfumenn og gerir