Skírnir - 01.09.1990, Síða 160
412
GUÐBERGUR BERGSSON
SKÍRNIR
umgengni við þá að endalausri prófraun, varð til þess að Málfríður
eyddi til að mynda miklum tíma í það óvinnandi verk að leiðrétta
málfar þulanna í útvarpinu, svo ég tali ekki um „aðförina að
íslenskunni" í sjónvarpinu. Hálf blind sat hún flest kvöld á verði með
óbrigðula málkennd sína, límd við skjáinn, lauguð draugslegri birtu frá
honum og leiðrétti kvikmyndatextana eins og þeir væru hverfulir stílar.
Hún sótti í alls kyns menningarrusl, að sögn bara til þess að heyra, lesa
og sjá hvílík herjans vitleysa gæti oltið upp úr sumum mönnum og hvað
væri hægt að skrifa rangt og heimskulega. Að sjálfsögðu leiðrétti hún
ósköpin, tuldrandi, hnipruð saman í hægindastól hjá stórri jurt sem hún
kallaði „Ófreskjuna“, jafn ótrauð við að leiðrétta þá bögubósa „sem
komu í sjónvarpið“ og gáfnaljósin í útvarpinu höfðu á sinni tíð leiðrétt
„ambögurnar" í ljóðum hennar og hafnað þýðingunum, meðan
þar réðu ríkjum í dagskrá kvöldsins hjáróma, borubrattir karlar
með rímnakveðskap og sögur um látlausar svaðilfarir í takt við söngl-
andi, lágróma kerlingar frá Kvenfélagasambandi Islands sem fluttu
endalaus erindi og frásögur um kvalræði húsmæðra í „prísund"
heimilanna, bundnar við óhreina bossa á krökkum og álíka fúlan
eldhúsvask sem var á alltof lágu borði fyrir bakveikina í þeim. Með
lágum eldhúsvöskum ætluðu vondir eiginmenn að hryggbrjóta þær
alveg.
Einhverra hluta vegna grunaði mig að í raun og veru hafi hún verið
sólgin í það sem hún taldi vera „langt fyrir neðan virðingu sína“. Það
hendir vandlætara, enda getur hið rétta, fullkomna og gáfulega verið
skelfing vitlaust og leiðinlegt; en vitleysunni er öllu heilli oft öfugt farið.
Þegar ég sagði henni að hún gæti setið öll kvöld við að leiðrétta
ambögur í sjónvarpinu, án þess að óbrigðul málkennd hennar bærist
textahöfundunum til eyrna, því enginn heyrði til hennar, virtist hún
verða undrandi og jafnvel hneyksluð á annarri eins fjarstæðu.
Hvað með það, ég átti litlu portúgölsku ljóði að þakka að ég leystist
frá linnulausum gáfnaprófum.
Ég vissi að Málfríður hafði þýtt og birt á prenti að minnsta kosti tvö
smáljóð eftir portúgalska skáldið Fernando Pessoa, líklega þau einu
sem höfðu verið þýdd á íslensku. Hún átti eitt sammerkt við hann, að
hafa fyrir sið að henda í stóra ferðatösku því sem hún samdi, köruðu
eða hálfköruðu. I henni var ógurlegt handritaskran, öllu ægði saman í
þessari áþreifanlegu sálarkirnu. Þótt Pessoa hafi dáið fyrir rúmum