Skírnir - 01.09.1990, Page 170
422
GUÐBERGUR BERGSSON
SKlRNIR
brúnkökur, síðan jólakökur; en allt fór á einn veg: svínakjötskeimur var
af öllu hennar bakkelsi.
Hún opnaði ofndyrnar, gægðist inn, þefaði, fann megna pestina en
enga skýringu á henni aðra en þá að fyrst hún fór til Danmerkur hlyti
hún að hafa borið ósjálfrátt með sér svínalykt, sem hefði síðan sest með
einkennilega illkvittnislegum hætti að í ofninum og rauk síðan í
kökurnar með þeim afleiðingum að ótætið hitti beint á viðkvæma
bragðlauka bókmenntasinnaðra kvenna svo þær urðu það hneykslaðar
að þær misstu áhugann á henni og verkum hennar.
Utvarpsverðlaunin áttu eftir að draga annan dilk á eftir sér. Þau álög
virðast hvíla á vinstrimönnum að ef þeir komast í ríkisstjórn grípur þá
skattheimtugleði. A þessum tíma var Ragnar Arnalds fjármálaráðherra,
og þegar ég var búinn að fá aukaútsvar einu sinni á tekjur mínar, sökum
verðlaunanna, hugsaði ég sem svo: fremur hætti ég á íbúðarkaup og
tapa kannski fénu fyrir eigin glópsku en ég láti hirða það af mér hljóða-
laust með skattheimtu.
Eg fór skyndilega frá Málfríði, af því ég gat ekki lagt á mig kvein
hennar eða jafnvel hefndir, hefði ég sagt upp með löngum fyrirvara og
haldið áfram að umgangast hana í hennar eigin ríki. Maður getur líka
orðið undarlega háður gömlu fólki. Ellin er afar heillandi og áhrif
hennar, ef manni tekst að losa sig við rótgróna fordóma gagnvart henni.
I umgengni við gamalt fólk er auðfundið hvernig lífið og form þess
leysast upp og hverfa í ljóðræna gleymsku. Ofan á þetta bættist að
Málfríður var orðin jafn ein og hún hafði alltaf verið; ég gat ekki lagt
þá vitneskju á mig meðan á uppsagnarfrestinum stæði að enginn
heimsækti hana reglulega nema gömul vinkona hennar, Sigfús Daðason
og konan hans og Steinunn Sigurðardóttir. Mér bar ekki nein skylda til
að lina einsemd hennar. Eg var aðeins ókunnugur leigjandi frá annarri
strönd en hún.
I fremri ganginum hjá henni óx eða stóð í stað einmanalegt og fram-
andi blóm sem liðaðist upp um vegginn hjá útidyrunum og blómgaðist
aðeins einu sinni á ári, alltaf að vetrarlagi. Það var eins og það myndi
eftir liðinni æskutíð í hitabeltinu hinum megin við miðbaug, þar sem
sumarið ríkir meðan hér er vetur. Það hirti ekki um hið fjandsamlega
kalda umhverfi heldur lifði samkvæmt eigin lögmálum. Blómið bjó þess
vegna yfir sama eðli og skáldið. Þegar minnst varði skaut það fram milli
blaðanna kransi líkum rjóðu vaxi, alltaf á kvöldin. Við höfðum oft