Skírnir - 01.09.1990, Side 176
428
PÁLL SKÚLASON
SKÍRNIR
II
I ljósi þess sem ég hef nú rakið um starf og viðfangsefni rithöfundarins
vil ég fara nokkrum orðum um vissa erfiðleika sem mér virðast steðja
að fólki nú á dögum og ég tel að rithöfundar hljóti með einum eða
öðrum hætti að takast á við og jafnvel að greiða úr. Erfiðleikarnir sem
ég hef í huga lúta að þeirri heimsmynd sem mótast hefur á síðari tímum
og fólk virðist falla fyrir án þess að gera sér ljóst hvað það hefur í för
með sér. Nú er auðvitað óskaplega margt um þetta að segja og málið allt
svo viðamikið og flókið að til að gera því skil þyrfti að semja að minnsta
kosti tíu bindi, hafa til þess minnst tíu ár og helst tíu manna starfslið.
Heimsmynd sú sem fólk hefur og hallar sér að vitandi vits eða
óafvitandi hefur ævinlega þrjár hliðar. Ein snýr að manneskjunni sjálfri,
stöðu hennar í tilverunni, hvernig hún tengist öðrum og öllu öðru.
Önnur hlið snýr að mannfélaginu, gerð þess, öflum sem þar ríkja og
þeirri stefnu sem það tekur (stefnurnar sem til greina koma eru vanalega
tvær, önnur til hagsbóta, hin til voða). Þriðja hliðin snýr að alheiminum
eða undirstöðuveruleikanum, hvort hann sé efnislegur eða andlegur,
hvort líf sé að loknu þessu eða ekki og öðru í þeim dúr. Heimsmynd
nútímans, sú sem fer um heiminn um þessar mundir, sýnir vissar
mótsagnir á hvaða hlið hennar sem litið er.
Lítum fyrst á þá hlið sem snýr að manneskjunni í tengslum hennar
við annað. Mótsögnin, sem hér blasir við í heimsmynd nútímans, felst
í því að líta á manneskjuna bæði sem sjálfstæða persónu sem á að vera
sjálfs sín herra og sem hlekk í keðju þeirra afla er leika um veröldina.
Manneskjan, þessi vera sem ég er, þú ert, hann er eða hún, er í sömu
andrá alfrjáls og alskilyrt. Með gömlu orðalagi má segja að hún sé í senn
sál eða andi án allrar festu og tengsla, og hrörnandi líkami samsettur úr
blóðugum pörtum sem best er að vita sem minnst af. Þessi forna
mótsögn hefur tekið á sig miklu hrikalegri mynd en áður vegna þeirrar
upphafningar sem sjálfið eða egóið, þetta einstaka ég sem hver
manneskja er eða ímyndar sér að hún sé, hefur orðið fyrir á þessari öld.
Ef lýsa ætti heimsmynd 20. aldarinnar með einu orði, þá myndi ég
nefna einstaklingshyggju eða nánar sagt sjálfshyggju til að tákna þessa
upphafningu sjálfsins sem orðið hefur nákvæmlega á sama tíma og