Skírnir - 01.09.1990, Side 178
430
PÁLL SKÚLASON
SKÍRNIR
tilstuðlan tækni og vísinda sem eru hvarvetna af sama eða svipuðu tagi.
Það er sama rökvæðingin sem við sjáum að verki út um allan heim í
viðskiptum, framleiðslu, stjórnun o.s.frv. Og um leið svipaðir lifnaðar-
hættir, sömu tækin, sömu fötin og sama afþreyingarefnið. Hins vegar
er svo viðleitnin til að marka sérstöðu sína, greina sig frá öðrum, finna
sjálfan sig með hliðsjón af tiltekinni sögu, sérstöku tungumáli og
ákveðnu þjóðerni.
Þessi innri mótsögn í menningu heimsins setur svip sinn á þjóð-
félagsveruleikann allan, veldur togstreitu, spennu og átökum sem
brjótast hvað eftir annað fram í óeirðum, styrjöldum, byltingum. Eg
þarf ekki að nefna dæmi.
Mótsögnin er þessi: Annars vegar verður hver þjóð að tileinka sér
alþjóðlega tækni í skipulagningu samfélagsins og uppbyggingu þess
sem miðar að því að gera samfélagið alþjóðlegt; og þessi viðleitni sem
horfir til framtíðar veldur óhjákvæmilega upplausn í samfélaginu,
breyttum vinnuskilyrðum, nýju gildismati, flutningum fólks úr einni
atvinnugrein í aðra og röskun búsetu, svo nokkuð sé nefnt. Hins vegar
verður hver þjóð að horfa til fortíðar, reyna að viðhalda sérstöðu sinni,
þjóðlegum gildum, tungu, sögu og siðum, ef hún á ekki bókstaflega að
farast eða leysast upp.
í hnotskurn má segja að þetta sé mótsögn trúar og tækni. Með trú
á ég ekki aðeins við hefðbundin trúarbrögð, heldur á ég fyrst og fremst
við andlega þáttinn í lífi okkar sem birtist skýrast í leit fólks eftir
varanlegum verðmætum og fótfestu í heiminum. Með tœkni á ég ekki
aðeins við safn kunnáttu og verkfæra, heldur á ég líka við verklega
þáttinn í lífi okkar sem birtist í viðleitni fólks til að ná tökum á
hlutunum og leggja undir sig heiminn. Trúin er bandið sem bindur
okkur saman, gefur okkur fast land undir fótum. Tæknin greinir allt í
sundur, leysir upp, opnar nýja möguleika til athafna. Trúin tengist
ákveðinni sögu, tæknin er alþjóðleg. Þannig verður innan hverrar
þjóðmenningar togstreita trúar og tækni sem setur síðan svip sinn á öll
samskipti þjóða. Og endurspeglast síðan í heimsmyndinni sem ýmist
dregur dám af tiltekinni trú sem er ævinlega staðbundin, menningar-
bundin, eða heimsmyndin er öll undir merkjum tækninnar þar sem
menn sjá fyrir sér veröld alþjóðlegra viðskipta og samvinnu.
Loks skulum við snúa okkur andartak að þeirri hlið heimsmynd-
arinnar sem snýr að veruleikanum í heild sinni eða því sem liggur