Skírnir - 01.09.1990, Page 179
SKÍRNIR
SPURNINGAR TIL RITHÖFUNDA
431
tilverunni til grundvallar. Ef við viljum reyna að gera okkur einhverja
mynd af því hvers konar skoðanir samtímamenn hafa á veruleikanum
í heild sinni, virðist mér að greina megi þrjár meginstefnur. I fyrsta lagi
er efnishyggja þar sem lögð er til grundvallar sú trú að allt sem sagt
verður af viti um alheiminn falli undir vísindin (eðlisfræði, efnafræði og
líffræði). I öðru lagi handanhyggja þar sem lögð er til grundvallar sú trú
að handan efnisheimsins sé annar og æðri heimur sem vísindin nái ekki
til og sem við fáum hugboð eða vitneskju um annað hvort fyrir
tilstuðlan opinberunar eða með trúarlegri reynslu, nema hvort tveggja
sé. I þriðja lagi er svo dulhyggja þar sem ekki er gengið út frá neinum
skörpum skilum milli efnislegs og andlegs veruleika, heldur gert ráð
fyrir því að veruleikinn sé að endingu óræður og það hvíli leynd yfir því
hvernig sambandi okkar við hann sé háttað.
Nú falla lífsskoðanir manna sjaldnast afdráttarlaust undir eina af
þessum þremur stefnum. Vafalaust eru til hreinir efnishyggjumenn,
hreinir handanhyggjumenn og hreinir dulhyggjumenn. En miklu oftar
er raunveruleg lífsskoðun fólks einkennilegt sambland af þessu öllu.
Sanntrúaður vísindahyggjumaður trúir iðulega líka á guð, andlegan
veruleika á bak við heim efnisins, og telur sig jafnframt hafa orðið fyrir
dulrænni reynslu, sem hann treystir sér kannski alls ekki til að lýsa eða
tala um. Þannig stendur oft ekki steinn yfir steini í lífs- og heimsskoðun
fólks.
Við blasir að afstaða þorra fólks til lífsins og tilverunnar einkennist
af mótsögnum, ósamkvæmni og erfiðleikum við að gera upp hug sinn
um það hverju skuli að endingu trúa. Og þessu fylgir gjarnan kald-
hæðni eða kæruleysi um lífsskoðanir. Afleiðingarnar geta verið af
tvennu tagi. Annað hvort leitar fólk í blindni á náðir einhverrar trúar
sem veitir því visst öryggi, en brýtur í bága við skynsamlega gagnrýna
hugsun. Eða fólk fer að hugsa og breyta í anda tómhyggju sem vinur
minn einn kallar „skiptir-ekki-máli-stefnuna“ og allt verður í augum
þess jafn gilt eða réttara sagt jafn ógilt eða ómerkilegt, vegna þess að í
sjálfu sér skiptir ekkert máli.
Þessi tómhyggja, sem margir leitast við að loka augunum fyrir,
stendur í nánum tengslum við sjálfsupphafninguna sem ég lýsti sem
höfuðeinkenni á heimsmynd þessarar aldar. Allir mælikvarðar á
sannleika, réttlæti og fegurð heyra sögunni til. Þess í stað verður allt
bundið sjálfinu sem ákveður hvað skipti máli, hvað sé rétt og hvað
28 — Skímir