Skírnir - 01.09.1990, Page 184
436
ÞÓRIR KR. ÞÓRÐARSON
SKÍRNIR
Verkmennmg íslendinga er einn merkasti þátturinn í þjóðfélaginu.
En hún er ekki byggð á tækni og verkfræði einni saman. Góð verk-
menning grundvallast á skilningi fólks á vinnunni og gildi hennar, á
siðfræði vinnunnar.
Hlutverk vísindarannsókna er að efla skilning okkar á manninum og
náttúrunni, á okkur sjálfum og umhverfi okkar.1 Mannleg hugsun er
undirstaða allra vísinda, og er hugsunin því frumviðfangsefni þeirra. Því
mætti segja að heimspeki og önnur hugvísindi séu undirstaða allra
vísinda.
Siðferðileg og pólítísk sjónarmið um velferð þjóðfélagsins og ein-
staklingsins þurfa að vera mönnum ljós í öllum greinum vísinda til þess
að komist verði hjá afskræmingu þeirra (sbr. tengsl nazisma og vísinda
fyrr á öldinni).
Það telst því hlutverk vísinda að safna þekkingu, miðla þekkingu,
afla nýrrar þekkingar og túlka þekkingu, en síðast talda verkefnið, að
túlka þekkingu, vill oft gleymast. Við það fást hinir siðfræðilegu þættir
vísindagreinanna, t.d. læknisfræðinnar. En einnig ber að minna á sið-
fræðileg vandamál líftækninnar, þar sem brátt mun unnt reynast að
„framleiða” menn margfalt stærri en fólk er nú.
Tækni er nauðsyn. En hún er ekki goðmagn heldur tæki í höndum
manna. Hjátrú almennings (trú á tækni sem goðmagn) er framförum
fjötur um fót. Tæknin er tæki til þess að ná valdi á náttúrunni og hag-
nýta sér hana. Hins vegar er tæknihyggjan og tæknidýrkunin, eins og
kunnugt er, mesta hættan sem steðjar að umhverfi mannsins. Einnig
steðjar að sú hætta að öll lífsafstaða nútímamannsins verði tæknileg og
menn gangi því á sveig við ýmsa grunnþætti lífsins svo sem tilfinninga-
líf, fegurðarskyn og lífsgildi. Sjást þessa þegar merki. Og sú hjátrú er
beinlínis hættuleg. Hún getur leitt til þess að tæknin fari að móta mat
á lífsgildum.2 Leiðir hún þá til hruns andlegs sjálfstæðis.
Það er sem sé víðar guð en í Görðum, eins og eitt sinn var sagt. Þau
vísindi og fræði sem fást við að skilja eigindir lands og þjóðar á öllum
sviðum menningar eru ef til vill mikilvægust allra.
1 Lög um Vísindaráð og Rannsóknaráð ríkisins kveða skýrt á um þetta. Þar
segir að verkefni vísindarannsókna sé „eðli mannsins og umhverfi hans” og
rannsóknir á „nýtingu náttúrugæða“. - Lög nr. 48,1. kafli, 1. gr.
2 Sbr. grein Árna Finnssonar um áhrif tækninnar á lífsgildin í hausthefti
Skírnis 1989, s. 423-28