Skírnir - 01.09.1990, Page 197
SKÍRNIR
LÍFIÐ VERÐUR ALDREI ...
449
gestum hér í landi þar sem viðræður spunnust m.a. um samstarf
háskóla. Gestirnir lögðu til að Háskóli Islands færi að kenna á ensku til
að laða að erlenda stúdenta. Þegar ég tjáði þeim að við myndum fram-
vegis sem hingað til kenna á íslensku þá töldu þeir það óraunsæi og
rómantík. Slíkar tillögur hafa komið áður og koma vafalítið frá fleirum,
en vissum verðmætum verður ekki fórnað á altari arðsemisgyðjunnar.
Ég ræði þessi mál við ykkur, kæru kandídatar, vegna þess að íslensk
tunga og menning - já ísland, auðlindir þess og erfiðleikar - er ykkar
arfur og ykkar er framtíðin og ábyrgðin.
Þið verðið sjálf að taka til hendi og móta það samfélag sem þið ætlið
ykkur og börnum ykkar. Lífið verður aldrei eins og það áður var. Þótt
margir þrái að staldra við og halda í líðandi stund þá munu breytingar
halda áfram og lífshættir breytast en þið eigið og verðið að móta lífið
í landinu. Verið vel á verði og beitið gagnrýninni hugsun. Máltækið
segir að þeir ungu viti allt, þeir miðaldra efist um allt og þeir gömlu trúi
öllu. Þessu mætti jafnvel snúa við því að oft virðast þeir ungu trúa öllu.
Hér á árum áður, þegar ég var ungur, trúði ég því að það sem ég lærði
væri sannleikurinn, væri veruleiki sem stæði á traustum grunni. En
þessi veruleiki tók stöðugum breytingum og sannleikurinn reyndist oft
hugmyndir einar, tilgátur og kennisetningar. Nú er ég efagjarnari, trúi
síður á fullyrðingar og kenningar og enn síður á slagorð hinna ýmsu
erindreka innlendra eða erlendra aðila.
Það eru ekki aðeins hinar ytri aðstæður sem breytast í lífinu, hver
einstaklingur er í stöðugri mótun á lífs- og þroskaferli sínum. Þessi
mótun mannsins er að hluta í eigin hendi, er á vissan hátt sjálfsköpun
þar sem þú skalt leitast við að vera það sem þú vilt verða. Ég vil með
þessu benda þér á að þú ræður miklu um eigin hamingju og hugarró.
Lífsgæði eru afstætt hugtak og það besta í heimi hér verður aldrei mælt
með neinni mælistiku, en það er ást og hamingja.
Senn er komið að kveðjustund. Við þökkum ykkur samstarfið á
liðnum árum, þið hafið fengið gott veganesti út í lífið og ykkur mun
farnast vel ef þið gætið hófsemi og sýnið drengskap í öllum sam-
skiptum. Við, bæði fjölskyldur ykkar og Háskólinn, erum stolt af
ykkur og væntum mikils af ykkur. Við væntum þess að þið verðið
sómakærir og liðtækir þátttakendur í lífsbaráttu þessarar þjóðar sem
hefur ykkur alið og vel að ykkur hlúð. Þið hafið þegið góða menntun
sem opnar dyr tækifæra víða um heim. Menntun er máttur sem