Skírnir - 01.09.1990, Page 212
464
SIGURÐUR A. MAGNÚSSON
SKÍRNIR
þeim afleiðingum, að opinber umræða vestra sé orðin háskalegur þvættingur.
Hann tekur fram, að hann sé ekki að fordæma „hismi" sjónvarpsins, enda hafi
prentvélin framleitt hismi sem fylla mundi Grand Canyon. Það besta sem
sjónvarpið hafi fram að færa sé ekki annað en hismi, og útaf fyrir sig sé það
ekki umtalsverð ógnun við einn eða neinn. Menning verði ekki dæmd af
húmbúkkinu sem hún framleiðir, heldur af því sem hún setur á oddinn og
telur vera mikilvægt. Sjónvarp sé einungis háskalegt þegar það líti á sjálft sig
eða sé tekið sem vettvangur veigamikillar umfjöllunar um málefni sam-
félagsins.
Postman rekur skemmtileg dæmi um munnlega hefð í Afríku samtímans
og Grikklandi til forna, víkur að doktorsvörnum við háskóla þarsem báðar
hefðir lifa hlið við hlið, og bendir síðan á, að þegar breytt er frá munnlegri
hefð til skriflegrar, síðan til prentmáls og loks sjónvarps, þá breytast um leið
allar hugmyndir um viðtekin sannindi. Þekkingin er ævinlega mótuð af
tilteknu stigi fjölmiðlunar. Síðan ræðir hann, í hverju lestur prentmáls sé
fólginn, hvers hann krefjist, og bendir á að oft sé notast við myndir til að
hjálpa tornæmu fólki til að skilja texta. Hann heldur því samt ekki fram, að
sjónvarpsáhorfendur séu endilega verr gefnir en lestrarhestar, en hinsvegar
skapi hinn nýi miðill nýja þekkingarfræði sem sé í öllum atriðum síðri en
þekkingarfræði bókmenningar og í eðli sínu háskaleg og fáránleg.
V
I næstu tveimur köflum rekur Postman með mörgum sláandi dæmum og
tölulegum upplýsingum bóka- og blaðalestur í Bandaríkjunum á 18du og
19du öld og kemst að þeirri niðurstöðu, að óvíða í heiminum hafi prentað
mál gegnt jafnmikilvægu og merkilegu hlutverki, hvort heldur um sé að ræða
almenna menntun eða opinbera umræðu. Þetta á sér bæði sögulegar og
félagslegar skýringar, sem of langt mál yrði að fjalla um hér, en ég get ekki
stillt mig um að minnast á frægar kappræður sem Abraham Lincoln átti við
Stephen A. Douglas svo árum skipti á sjötta áratug síðustu aldar og stóðu að
jafnaði sex til sjö tíma í senn. Þeir töluðu ævinlega fyrir fullu húsi, og ekki var
á tilheyrendum að skilja, að þeim þætti of mikið talað, og voru þó úr öllum
stéttum samfélagsins. Að sönnu er þetta dæmi ekki sótt í heim prentmáls, en
það varpar birtu á þá umræðu og það menningarandrúmsloft sem þáði styrk
sinn frá prentuðu máli.
í fimmta kafla víkur Postman að þeim umskiptum sem urðu vestanhafs
um miðbik síðustu aldar og leiddu til þess, að vitleg umræða og útlistun létu
í minni pokann fyrir skemmtanaiðnaðinum. Framá fimmta tug 19du aldar
bárust fréttir með hraða póstvagna og járnbrautarlesta eða í hæsta lagi með
50 kílómetra hraða á klukkustund.
Með tilkomu raforkunnar gerbreyttist þetta. Það var Bandaríkjamaðurinn
Samuel Finley Breese Morse sem leysti þá þraut að taka rafmagnið í þjónustu
fjarskipta og þurrkaði um leið út skilin milli héraða og landa. Sennilega sá