Skírnir - 01.09.1990, Síða 213
SKÍRNIR
AÐ SKEMMTA SÉR TIL ÓLlFIS
465
Morse ekki, hvað af uppgötvun hans mundi leiða, en það gerði afturámóti
Henry David Thoreau, sem í bók sinni Walden lét svo ummælt, að menn
væru í óða önn að koma á ritsímasambandi milli Maine og Texas, en sennilega
hefði hvorugt þessara ríkja neitt mikilvægt að miðla hinu. Thoreau sá semsé
að ritsíminn mundi heimta samræðu milli Maine og Texas og móta þá sam-
ræðu að eigin geðþótta. Arangurinn varð sá samhengislausi hrærigrautur sem
fréttamiðlun nútímans er, þarsem engin hliðsjón er höfð af félagslegu eða
pólitísku notagildi, heldur einvörðungu stílað uppá nýjabrum, æsigildi og
skringisagnir. Ritsíminn gerði upplýsingar að verslunarvöru sem sett var á
markaðinn án tillits til nota eða merkingar. Fjöldi blaða gleypti við þessari
nýjung og þarmeð varð grundvallarbreyting á bandarískri blaðamennsku,
sem fékk æ meiri svip af rokufréttastíl.
Einsog Thoreau gaf í skyn, varð ritsíminn þess valdandi að samhengi og
merking fóru forgörðum. Upplýsingaflóðið átti sáralítið eða ekkert erindi við
þá sem fyrir því urðu. Svipuðu ástandi lýsir enska skáldið Coleridge í frægri
ljóðlínu um vatnið sem er alstaðar, en hvergi deigur dropi til drykkjar. Vissu-
lega skrapp veröldin saman við tilkomu ritsímans, en hann gerir vitneskju
okkar um umheiminn yfirborðslega og örvar ekki til athafna, sem ætti þó að
vera einn megintilgangur allra upplýsinga. I munnlegri og bóklegri menningu
veltur mikilvægi upplýsinga á möguleikum til athafna. Ritsíminn og þær
tækninýjungar sem komu í kjölfar hans skópu offramboð upplýsinga sem
lömuðu vilja og getu til athafna. I fyrsta sinn í sögunni dreif að mönnum
upplýsingar sem svöruðu engum þeim spurningum sem á þeim brunnu og
gátu ekki gefið fullnægjandi svör við neinum vanda. Af þessu leiddi
samhengisleysi allrar opinberrar umræðu. Ritsíminn færði okkur sundraðan
tíma og rofna eftirtekt. Styrkur hans lá í að flytja fréttir með leifturhraða, en
ekki að safna þeim, skýra þær eða brjóta til mergjar; hann var þannig full-
komin andstæða bókarinnar. Mál hans var mál fyrirsagna, æsifengið,
ópersónulegt, sundurlaust, slagorðakennt. Ein frétt var í engu samhengi við
aðra sem á undan var komin né við þá sem á eftir fór.
VI
En hefði ritsíminn staðið einn sem myndlíking opinberrar umræðu, má telja
víst að prentmenningin hefði staðist áhlaup hans. Svo einkennilega vildi
hinsvegar til, að á sama tíma og Morse var að endurskapa inntak og merkingu
upplýsinga var Louis Daguerre að endurskapa inntak og merkingu náttúr-
unnar og kannski jafnvel sjálfs veruleikans. Einsog hann sagði sjálfur í
tilkynningu sem ætlað var að örva fjárfestingu í fyrirtæki hans: „Daguerre-
aðferðin er ekki einasta tæki til að teikna náttúruna - heldur ljær henni afl til
að fjölga sjálfri sér.“ Það sem Daguerre átti við var að ljósmyndin gerði
mönnum fært að fjölrita náttúruna einsog þeim þóknaðist.
Það var samt ekki fyrren enski stærðfræðingurinn og málfræðingurinn
William Henry Fox fann upp ljósmyndafilmuna, að fjöldaframleiðsla og